Forsýning á „Ísinn og himinninn“ að viðstöddum leikstjóranum

JPEG - 80.1 ko
Frá vinstri: Luc Jacquet, leikstjóri, Yvers Frenot, forstöðumaður frönsku heimskautastofnunarinnar, og Guðni Elísson, prófessor.

Kvikmyndin La glace et le ciel var sýnd á sérstakri forsýningu í Bíó Paradís þann 16. október síðastliðinn og var leikstjórinn sjálfur, Óskarsverðlaunahafinn Luc Jacquet, viðstaddur í boði franska sendiráðsins.

Luc Jacquet er einna þekktastur fyrir kvikmynd sína La Marche de l’empereur (Ferðalag keisaramörgæsanna) sem hlaut Óskarsverðlaun sem besta heimildarmyndin árið 2006.

Nýjasta mynd hans, La glace et le ciel, var valin til að ljúka Cannes kvikmyndahátíðinni 2015 en slíkt telst mikill heiður. Myndin verður frumsýnd um allan heim á næstu vikum. Hún fjallar um vísindamanninn Claude Lorius, sem rannsakaði ísinn á suðurskautslandi um árabil en hann fór fyrst á þær slóðir árið 1957. Hann segir frá sögu jarðar og framtíðinni sem mannfólkið mótar. Hér er um að ræða vísindalegt ævintýri manns sem helgað hefur líf sitt leit að sannleikanum um tilvistina í hjarta frosinnar veraldar.

Forsýningin var hluti af opinberri dagskrá Arctic Circle ráðstefnunnar og var efnt til hennar í tilefni af komu Frakklandsforseta, François Hollande, til landsins þann sama dag. Að sýningu lokinni var áhorfendum boðið að bera upp spurningar við aðstandendur myndarinnar. Guðni Elísson, prófessor og stofnandi „Earth 101“ verkefnisins stýrði þessum lið. Ásamt Luc Jacquet sat vísindamaðurinn Yves Frenot fyrir svörum. Hann stýrir frönsku heimskautastofnuninni (Institut polaire français Paul-Émile Victor). Að þessu loknu var gestum boðinn kokkteill í Bíó Paradís.

Um var að ræða samstarfsverkefni Sendiráðs Frakklands og Bíó Paradísar. Almennar sýningar hófust helgina 23.-25. október.

Síðasta uppfærsla þann 09/11/2015

Efst á síðu