Viðtalið: Jacky Pellerin, þjálfari íslenska landsliðsins í sundi [fr]

JPEG

Ég fæddist í Normandí, í Ferté-Macé fyrir 53 árum og ólst upp í bænum Flers fram á unglingsár.

Ég var í sundfélagi í Flers og þar varð ég gagntekinn af sundíþróttinni og fór að stunda það.

Sautján ára gamall fluttist ég frá Normandí til Narbonne í Suður-Frakklandi og byrjaði að þjálfa árið 1983, tvítugur að aldri. Ég var aðstoðarþjálfari í sundfélagi sem heitir Cachalots des Six Fours, nálægt Toulon. Ég lærði mikið á þessum fimm árum sem ég var aðstoðarþjálfari. Árið 1988 varð ég svo aðalþjálfari í sundfélaginu.

Meðal ungmennanna, sem ég þjálfaði þarna, var afskaplega efnilegur sundmaður sem heitir Franck Esposito. Hann varð Evrópumeistari, heimsmeistari og bronsverðlaunahafi á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992 í 200 metra flugsundi.

JPEG

Það er dálítið skondið hvernig tengslin við Ísland komu til. Árið 2007 stýrði ég sundknattleiksfélaginu í Toulouse og keppnisdeildinni þar. Í Frakklandsmeistarakeppninni um sumarið, sem fram fór í Saint-Raphaël, kom aðstoðarframkvæmdastjóri franska sundsambandsins til mín og sagði: „Heyrðu, Jacky, það er félag á Íslandi, Ægir, að leita að þjálfara sem gæti líka litið til með landsliðinu.“ Svo bætti hann við: „Ég veit að þú ert nógu klikkaður til að leggja í þetta. Heldurðu að þú sláir til?“ Og ég svaraði: „Já, því ekki það?“

Gústaf Adolf Hjaltason, sem þá var formaður Ægis, hafði samband við mig og sagði mér svo að stjórnin hefði áhuga á mér. Hann bauð mér að koma til að ræða málin og litast um. Eftir einn og hálfan mánuð var ég ákveðinn í að láta slag standa og koma í að minnsta kosti tvö ár, hugsanlega þrjú... og þau eru nú orðin níu!

Mér brá í brún yfir veðráttunni hérna, eins og öðrum löndum mínum sem hingað koma í sumarlok. En Ísland heillaði mig líka á einhvern óútskýranlegan hátt. Sjálfsagt eru það þessar djúpu rætur frá Normandí sem þar búa undir!

JPEG

Sund er stöðluð íþrótt, alls staðar sama tækni og sömu reglur. Samt er áberandi að kunnir íslenskir sundmenn, bæði fyrr og síðar, hafa ýmist verið í baksundi eða bringusundi. Það hefur lítið farið fyrir þeim í skriðsundi, flugsundi eða fjórsundi.

Ég hef ekki þurft að standa fyrir miklum breytingum eftir að ég varð landsliðsþjálfari en ég verð að vera á tánum varðandi æfingar þjálfara og sundmanna því þátttaka í sundmótun erlendis krefst þess að við stöndum okkur betur og betur.

Það hafa orðið miklar framfarir í sundinu. Á heimsmeistaramótinu í Kazan árið 2015 komumst við fjórum sinnum í úrslit, það er besti árangur sem Íslendingar hafa náð. Og þrír sundmenn eru búnir að ná lágmarki fyrir Ólympíuleikana í Ríó og við erum að vona að tveir, jafnvel þrír, til viðbótar nái farmiða til Brasilíu.

Auðvitað vonast maður eftir að þeir vinni verðlaun, hver svo sem málmurinn er, en ég segi sundfólkinu mínu alltaf að mestu skipti að komast í úrslitin. Í úrslitum getur allt gerst!

Ég get sem dæmi nefnt að í vetur, á Evrópumeistaramótinu í Ísrael, þá náði Eygló Ósk Gústafsdóttir í úrslit í 100 metra og 200 metra baksundi og hún krækti í tvenn bronsverðlaun.

JPEG

Það eru margar sundlaugar á Íslandi, mér þykir það alveg magnað. En Íslendingar fara flestir í sund til að slaka á, þeim finnst bágt að sjá sundið fyrir sér sem einhverja átakaíþrótt. Mér finnst að íslenska sundsambandið ætti að taka höndum saman við skólakerfið um að efla undirstöðuna hjá börnum og unglingum, og líka við heilbrigðisráðuneytið um að leggja sem flestum lífsreglurnar svo þeir njóti sem mest góðs af þessari íþrótt.

Ég er áhugamaður um ferðamennsku, lauk meistaraprófi í ferðamálafræðum en er einn af fáum Frökkum á Íslandi sem ekki vinnur í túrismanum!

Mér finnst óskaplega gaman að kynnast þessum litlu undrastöðum, eins og gömlu lauginni á Flúðum, Mývatni og nágrenni þess eða friðsældinni á Siglufirði. Ég les mikið og hef ánægju af að spila tarot við franska og íslenska vini mína aðra hverja viku. En ég fer á fætur klukkan hálfsex á morgnana og vinn til hálfníu á kvöldin svo að ég hef ekki mikinn tíma fyrir tómstundir.

Ég á þrjú börn, Anaïs, Elsu og Símon, og tvær afadætur, sem öll búa í Frakklandi. Þegar ég kom til Íslands var ég fráskilinn. Eftir tvö ár hitti ég Bryndísi sem vann í móttöku við eina sundlaugina... Við hittumst, kynntumst og giftumst, það eru nú komin tvö ár.

Ísland er mér mjög kært. Ég ætla ekki að bera beinin hérna en mér liggur ekkert á að fara. Ég fæ iðulega tilboð um samsvarandi starf í öðrum löndum en ég er ánægður hér. Auðvitað skiptir árangurinn máli en ánægjan af starfinu með unga fólkinu er mér fyrir mestu. Ég lít svo á að ég annist frekar handleiðslu en þjálfun. Mannlegi þátturinn er mér meira virði en sjálfur árangurinn.

Síðasta uppfærsla þann 18/05/2016

Efst á síðu