Viðtalið: Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands [fr]

JPEG
Ég er fædd og uppalin í Reykjavík. Æskuheimili mitt til sjö ára aldurs var Þjóðminjasafnið.

Þar var íbúð fyrir fjölskyldu þjóðminjavarðar en pabbi var þjóðminjavörður. Sjö ára flutti ég svo í Skerjafjörðinn sem var jafn meiriháttar staður að alast upp á og þjóðminjasafnið! Á árunum kringum 1980 var mikið verið að byggja einbýlishús í Skerjafirðinum svo það var ævintýralegt umhverfi fyrir krakka. Skerjafjörðurinn er hálfgert þorp, flugvöllurinn klippir byggðina frá Melum og Högum og Vatnsmýrinni. Það var dásamlegt að hafa flugvöllinn og svo sjóinn!
 
Ég útskrifaðist úr MR 1992. Þá fannst mér rétt að fara til Parísar og læra betur frönsku (ég hafði verið sumarskiptinemi í Lorient og Royan nokkru áður) og ætlaði svo að koma heim eftir einn vetur og fara í lögfræði. En mér leið svo vel í París svo ég fór að leita leiða til að geta verið þar áfram og fór í inntökupróf fyrir útlendinga í Sorbonne (Paris IV). Náði prófinu með einhverri lukku. Við tók nokkuð strembin skólaganga, ég var ekki orðin nógu góð í frönsku þá, en þetta kom allt með vinnusemi og með hjálp góðra vina sem ég eignaðist og á enn. Ég lærði listasögu í Sorbonne. Tók DEUG, Licence og Maîtrise við listasögu- og fornleifafræðideildina á Rue Michelet í 5. hverfi.
 
Þegar ég var búin með Maîtrisuna hafði ég kynnst manninum mínum. Fann hann reyndar á Íslandi. Ég hélt að ég væri að fara heim til Íslands en þá var hann að flytja til mín út til Frakklands. Hann vann þá hjá ÍS (Íslenskar sjávarafurðir) sem var með verksmiðju í Boulogne-sur-Mer og til að gera langa sögu stutta þá elti ég hann norður og við bjuggum saman í Frakklandi, fyrst í Boulogne og svo í Jonzac, smábæ í Charente-Maritime, í nokkur ár. Hann starfaði hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum en ég fékk vinnu fyrst hjá Boulogneborg, hjá fornleifastofnuninni og svo fór ég að starfa að samskiptum milli Íslands og Frakklands fyrir hönd Charente-Maritimehéraðs þegar við vorum komin til Jonzac. Ég hafði aðsetur í Rochefort sem verkefnastjóri. Þetta var Evrópuverkefni þar sem Charente-Maritimehéraðið og Samband Sveitarfélaga á Suðurnesjum áttu í ýmsum skiptum. Það voru meðal annars farnar viðskiptaferðir til Íslands til að kynna vörur frá héraðinu. Eins voru ungmennaskipti á krökkum sem stunduðu siglingar svo var leitað leiða til að glæða áhuga Íslendinga til að ferðast til þessa héraðs og einn besti hótel- og veitingaskóli var í héraðinu og einhver samskipti á þeim vettvangi voru í gangi. Þetta var ansi fjölbreytt og líflegt og margt reynt. Þarna kynntist ég suðvestur-Frakklandi vel. Aquitaine héraðinu, Bordeaux hlaut alveg sérstakan sess í mínum huga. Var svona lítil París einhvern veginn. Við eignuðumst okkar fyrsta barn í Frakklandi, í Royan. Merkilegt raunar, því Royan var fyrsta borgin sem ég kom til í Frakklandi, þegar ég var sumarskiptinemi tíu árum áður.

JPEG

Ég hef oft spurt mig að því afhverju ég fór í listasögu. Á vissan hátt spilaði það inn í ákvörðun mína að ég vildi vinna við eitthvað sem væri mikilvægur hluti af áhugasviði mínum. Ekki eiga áhugasviðið einungis fyrir frítímann. Ég var líka dálítið upptekin af því mikla atvinnuleysi sem ungt fólk á meginlandinu stóð og stendur frammi fyrir. Það eru lífsgæði fólgin í því að velja starfssvið út frá einlægu áhugasviði og þvílíkur vinningur að fá starfstækifæri. Við vorum reyndar sífellt minnt á það í náminu í París að samkeppnin væri hörð þarna úti, en ég var alltaf á leið heim í huganum svo ég gat ekki alveg samsamað mig þeim veruleika. Vissi þó ekkert hvað biði mín heima á Íslandi.

En hvar áhuginn á listum kviknaði? Ætli sjö furðuverk fornaldar eigi ekki einhvern þátt í því? Þetta var eitthvert verkefni í barnaskóla að lesa og skrifa um sjö furðuverk fornaldar og ég varð alveg heilluð af því sem mannshugurinn og mannshöndin geta gert og þetta verkefni, á þessum tímapunkti verður mér ávallt minnistætt. Það kemur reglulega upp í hugann. Stórvirki, stór og smá hversu undarlega sem það kann að hljóma, sem fá mig til að dást að einhverju, til að sjá eitthvað með nýjum hætti. Til að gleðjast yfir þeim mætti sem sumir virðast hafa umfram aðra, að skapa eitthvað sem hefur áhrif á þig. Sem hugurinn stöðvar inni í þér og þú leitar til, reglulega.

JPEG

Í dag veiti ég Hönnunarsafni Íslands forstöðu. Þetta er eitt yngsta safnið í íslenskri safnaflóru. Mitt hlutverk er og hefur verið að byggja undir það góðar undirstöður því ég ætla þessu safni stórt hlutverk. Ég var deildarstjóri sýningadeildar Listasafns Íslands áður en ég kom í Hönnunarsafnið og hafði ákveðna sýn á innviði safna, til að takast á við þetta nýja hlutverk sem safnstjóri. Ég hef verið hér í 7 ár og er mjög ánægð með hvernig safnið hefur smátt og smátt öðlast góðan og verðugan sess með þeim verkefnum sem hér eru unnin. Safnið hefur tækifæri til að verða leiðandi á sínu sviði. Hönnunarsafnið er eina safnið hér á landi sem hefur það hlutverk að safna, rannsaka og miðla íslenskri hönnunarsögu. Það er ekkert smá hlutverk. Sökum þess hversu ungt það er, erum við á stórum byrjunarreit. Á Íslandi hefur aðeins örlítill hluti hönnunarsögunnar verið rannsakaður og því fer mikill hluti af okkar vinnu í að safna heimildum. Það er stórt verkefni, heimildir felast í gripum en ekki síður með öflun gagna, viðtala og ljósmynda. Sumt nýtist okkur núna, en margt af því sem við erum að gera í dag er innlegg til sögu og rannsókna framtíðinnar. Við eigum merkilega sögu sem tengist iðnaði smáþjóðar á 20. öld. En hönnunarsagan okkar byggir líka að miklu leyti á handverki og listfengi sem er ekki hægt að útiloka í þessu samhengi. Söfnunarsvið safnsins eru: húsgagnahönnun, vöruhönnun, grafísk hönnun, fatahönnun, textílhönnun, leir- og glerlist, innanhússhönnun, gull- og silfursmíði og skartgripahönnun, landslagshönnun og byggingarlistasagan. Allt þetta frá aldamótunum 1900 til dagsins í dag. Við höldum reglulega sýningar og þær eru mikilvægt tæki í dag til að varpa ljósi á söguna og hjálpa okkur við að byggja upp safnkostinn og við erum með safngripi okkar til sýnis að staðaldri, reyndar aðeins lítinn hluta. Hér eru því yfirleitt alltaf tvær sýningar í gangi og ýmis hliðarstarfsemi til að veita gestum okkar betri þjónustu. Það að taka á móti gestum með leiðsögnum er til að mynda stór þáttur, en einnig fyrirlestrahald, vinnusmiðjur og margt fleira sem við gerum.
 
JPEG

Ef Hönnunarsafninu bærist himinhár styrkur myndi ég láta verða af því að senda bréfið sem ég er með í huganum til Jean Nouvel, og spyrja hvort honum hugnaðist að gefa Hönnunarsafni Íslands teikningu að nýrri safnbyggingu. Það yrði ansi hvetjandi inn í framtíðina fyrir safnið og byggingin stæði táknrænt og með tilgang. Þessar tvær þjóðir hafa jú tengst í gegnum aldirnar með ekki síður mikilvægum hætti en við tengjumst frændþjóðum okkar á Norðurlöndunum. Ég myndi nota styrkinn til að reisa safnbygginguna eftir Nouvel. Kannski bara úti á oddanum á Álftanesi. Það yrði nú gaman að fara sjóleiðina frá Reykjavík í Hönnunarsafnið í Garðabæ.

Síðasta uppfærsla þann 17/02/2016

Efst á síðu