Viðtalið: Éric Boury, þýðandi íslenskra bókmennta á frönsku [fr]

JPEG - 83.9 ko
Éric Boury dans un café sur la rue Pósthússtræti à Reykjavík / Éric Boury á kaffihúsi við Pósthússtræti í Reykjavík. Photo: Þröstur Brynjarsson.

Ég fæddist í dálitlu þorpi í miðju Frakklandi, þorpinu þar sem Jacques Tati tók upp stóran hluta af myndinni Jour de Fête, tuttugu árum fyrr.

Eftir stúdentspróf á bókmenntabraut árið 1985 fór ég til Caen í Normandí, til að læra norræn tungumál og ensku og síðan lá leiðin til Íslands eftir tveggja ára nám. Ég lauk meistaraprófi í háskólanum í Caen árið 1989, síðan DEA 2001 frá Sorbonne Paris-IV, undir handleiðslu Régis Boyers.

Ég hef haft áhuga á Íslandi og Norðurlöndum frá þrettán eða fjórtán ára aldri. Ísland hefur alltaf staðið hjarta mínu nær. Ég las Leyndardóma Snæfellsjökuls eftir Jules Verne þrettán ára gamall og þegar ég komst að því að íslenska væri líkust því tungumáli sem talað var á 13. öld vildi ég strax læra hana. Ég hafði líka séð myndir í bókum og tímaritum og hreifst mikið af landslaginu.

Til Íslands kom ég, sem sé, í júlí 1987 og fór til Eyjafjarðar og vann þar í tvo mánuði á sveitabæ sem heitir Höskuldsstaðir. Bændurnir þar, þau Rósa og Sigurður, tóku mér af mikilli alúð og gestrisni. Ég sinnti kúnum, ég gekk í öll tilfallandi störf á bænum. Og ég lærði mikið í íslensku af gestgjöfum mínum. Margt kom mér spánskt fyrir sjónir. Maturinn var stundum dálítið ævintýralegur... En það sem mig furðaði mest á var hvað voru margar bækur í bænum. Á mörgum frönskum sveitabýlum eru bændurnir mjög svo jarðbundnir og ekki bókhneigðir.
JPEG
Það er alltaf snúið að útskýra fyrirbæri eins og áhuga á íslenskum bókmenntum í Frakklandi. Eins og Íslendingar þá eru Frakkar bókmennta- og menningarþjóð. Báðar þjóðir leggja mikið upp úr tungumálinu og er annt um að til þess sé vandað. Mér sýnist franskir lesendur vera opnir fyrir nýjungum og að þeir kunni að meta þann framandlega heim sem íslenskar bókmenntir sýna þeim. Íslendingar kunna að skrifa, þeir kunna að tala um landið, semja sögur sem snúast um innansveitarmál en eiga erindi við allan heiminn, þetta gera þeir á vönduðu máli. Því má heldur ekki gleyma hvað hlutverk þýðenda skiptir miklu. Eins og Jón Kalman Stefánsson segir, þá eru heimsbókmenntir ekki til nema fyrir tilstilli þýðenda, og góðir þýðendur eru ekki til nema fyrir tilstilli góðra höfunda. Ég ímynda mér að frönskum lesendum finnist þeir í senn nálægir og fjarlægir íslenskum verkum og þeim heimi sem þau segja frá. Fyrir Frakka þá er eitthvað framandi við Ísland.

Ljóð eru það sem erfiðast er að þýða, án nokkurs vafa. Ég hef ekki þýtt nein ljóðasöfn en það hefur komið fyrir að ég hafi þurft að kljást við ljóð í skáldsögum sem ég þýddi, til dæmis eftir Sjón og Jón Kalman og Kristínu Ómarsdóttur, og ennfremur Steinunni Jóhannesdóttur sem verður gefin út á vori komanda. Það er ekki hlaupið að því að finna góða hrynjandi eða gott rím á frönsku, en tekst þó með því að setja undir sig hausinn og gefa sig allan í það. Raunar eru allar þýðingar erfiðar því þær snúast ekki um að þýða orð heldur að reyna að skapa lifandi veröld á öðru tungumáli. Og franska veröldin er býsna ólík þeirri íslensku.

Ég hef ekki tíma til að gefa mig að því að semja bók sjálfur. Ég hef yndi af því að (endur)semja á frönsku texta sem eru hugsaðir á íslensku: Því meir sem ég þýði, því hugfangnari verð ég. Mér þykir mikið til um að geta tjáð á frönsku orð sem einhver kona eða karl hefur fært í letur í grípandi íslenskri bók og ég nýt mín í þessu vafstri. Höfundarnir, sem ég þýði, eru orðnir vinir mínir og við tölumst reglulega við. Og þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég alla daga að semja. Þýðandinn þýðir með sínum eigin orðum og þess vegna er það, að þetta er bókin hans en samt á hann ekkert í henni. Ég hef afskaplega gaman af þeirri þversögn sem býr í þessu samhengi tveggja texta, tveggja landa, tveggja tungumála, tveggja menningarheima og tveggja síðna: „Exclude me in, include me out,“ eins og Árni Þórarinsson, vinur minn, segir af öðru tilefni í einni bóka sinna.

Síðasta uppfærsla þann 29/06/2016

Efst á síðu