Viðtalið: Benjamin Levy, hljómsveitarstjóri [fr]

JPEG
Ég fæddist í París og þar bjó ég til tvítugsaldurs, þegar ég fékk inngöngu í Conservatoire Nationale Supérieure de Musique (CNSM) í Lyon.

Pabbi er afskaplega tónelskur en annars er fjölskyldan meira í raunvísindum. Pabbi var lyfjafræðingur og stundaði rannsóknir í taugavísindum og mamma var sjúkraþjálfari.

Þau létu mig snemma fara að hlusta á tónlist og ég man sérstaklega eftir því þegar tónlistin orkaði fyrst á mig: Það var þegar Lorin Maazel stjórnaði Orchestre national de France í Châtelet leikhúsinu, upptökunni á „Turangalila-sinfóníunni“ eftir Olivier Messiaen sem var viðstaddur! Og í Parísaróperunni þegar Pierre Boulez stjórnaði „Vorblóti“ með Sinfóníuhljómsveit Lundúna. Þessir tónleikar eru mér enn í fersku minni. Ég minnist þess glöggt hvað þetta hafði sterk áhrif á mig.

Ég fór að læra á fiðlu sex ára gamall en síðan sneri ég mér að klassískum slagverksleik, og það var slagverksleikurinn sem leiddi mig til CNSM í Lyon eins og ég hef vikið að. Síðan fór ég í Tónlistarskóla Parísar og lærði tóngreiningu og eftir það í nám í hljómsveitarstjórn.

Ég sótti líka tíma hjá David Zinman, sem er frábær bandarískur hljómsveitarstjóri, í Aspen í Bandaríkjunum í The American Acdemy of Conducting og ég lærði líka við Academia Chigiana í Siena á Ítalíu.

Meðan ég var í Tónlistarskóla Parísar fór ég að vinna sem aðstoðarmaður Marcs Minkowskis og það opnaði eyrun fyrir flutningi tónlistar með upprunalegum hljóðfærum.

Ég lét fyrst til mín taka í „léttri“ tónlist með hópnum „Les Brigands“ sem beitti sér fyrir því að endurvekja fjöldann allan af gömlum frönskum óperettum. Þetta ævintýri aflaði okkur tvennra verðlauna, „Gulltónkvísla“, fyrir upptökur sem við gerðum!

Upp úr þessum hópi spratt kammersveitin Pelléas sem er dálítið sérstakt fyrirbæri, nokkurs konar kórbræðralag. Með þessum hópi höfum við spilað í hreint mögnuðum tónleikasölum í Frakklandi og í Evrópu. Við erum nú nýbúin að taka upp Beethoven á geisladisk, upptöku sem ég er afskaplega ánægður með.

Meðfram þessu hefur mér boðist að vinna með fjölmörgum hljómsveitum og óperum í Evrópu en þetta er fyrsta heimsóknin til Íslands!
JPEG
Steinunn Birna Ragnarsdóttir sá tónleika með mér á myndböndum á netinu og skrifaði til umboðsmannsins míns til að sjá hvenær ég væri bókaður. Ég átti lausan tíma og var ekki seinn á mér að koma til að stjórna óperunni hérna. Við Steinunn náðum strax firnagóðu sambandi, við erum með margar sömu hugmyndir um tónlist og okkur fannst eins og við hefðum lengi þekkst, samskiptin voru svo áreynslulaus!

Mér var búið að detta í hug að fara í frí til Íslands en það varð aldrei neitt úr því. Ég átti von á því að hér yrði kaldara en raunin varð. Og þótt dagarnir væru stuttir þegar ég kom, 12. janúar, þá hafa þeir lengst furðuhratt.

Ég hef kunnað sérstaklega vel við þetta vinsamlega og upplýsta samfélag sem ég hef skynjað hér. Það er dálítið erfitt að lýsa því en þetta er tilfinning sem ég hef hvergi fundið annars staðar í veröldinni.

Í frítímum hef ég yndi af lestri, kvikmyndum og síðan er ég mikill áhugamaður um flug. Mér til mikillar gleði bauðst mér fyrir fáeinum dögum að fljúga í lítilli flugvél. Það var alveg hreint ógleymanlegt!
——

Nokkrir netstaðir:

Myndbönd:
„Pelléas og Mélisande“ - Stanislawski leikhúsið í Moskvu - leikstjóri Olivier Py - 2012
• Tónleikar í Concertgebouw í Amsterdam - Kammersveitin Pelléas - Lorenzo Gatto - 2014 :
- Duparc „Aux Étoiles“ + Beethoven, „Rómansa í G-dúr“
- Beethoven, „Rómansa í F-dúr“
- Ravel, „Tzigane “
- Beethoven, „Die Geschöpfe des Prometheus“, ballettsvíta
Fílharmóníuhljómsveit Moskvuborgar - Lukas Geniusas - Ivan Pochenkin - 2014
Trailer CD Beethoven - Zig-Zag Territoires
Debussy, „Forleikur að Síðdegi skógarpúkans“ - Orchestre National de Lorraine - 2013

• Kynning á Pelléassveitinni
- Á frönsku
- Á ensku

Viðtöl:
- France-Musique - Le magazine
- Qobuz - Benjamin Levy tekinn tali
- ClassicAgenda - Beethoven með augum Pelléas sveitarinnar

Síðasta uppfærsla þann 09/03/2016

Efst á síðu