Viðtalið: Baldvin Björn Haraldsson, forseti Fransk-íslenska viðskiptaráðsins

JPEG - 141.9 ko
Baldvin Björn Haraldsson, à droite, avec Philippe O’Quin, Ambassadeur de France en Islande, au Stade de France le 22 juin 2016, au cours du match contre l’Autriche lors de l’Euro 2016. | Baldvin Björn Haraldsson, til hægri, með sendiherra Frakklands á Íslandi Philippe O’Quin, á Stade de France leikvanginum 22. júní 2016 þegar Ísland lék gegn Austurríki í Evrópukeppninni í fótbolta.

Ég er fæddur og uppalinn í Breiðholtinu. Ég stundaði nám í Hólabrekkuskóla og fór þaðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti.

Síðan lá leiðin í laganám í Háskóla Íslands. Eftir að hafa útskrifast sem lögfræðingur úr HÍ og að fengnum héraðsdómslögmannsréttindum á Íslandi, flutti ég til Frakklands og hóf þar nám í ILERI í París, en sá skóli er með samning við háskólann í Nice. Þar tók ég tvær gráður, annars vegar DESS du Droit International des Affaires og hins vegar 3éme Cycle de Gestion des Relations Internationales. Eftir nám tók ég svo lögmannsréttindi í París og gerðist meðlimur í Barreau de Paris. Ég stofnaði svo 1998 lögmannsstofuna BBA og starfa þar ennþá.

Ég starfaði með námi með Dr. Gunnlaugi Þórðarsyni sem tók doktorsgráðu við Sorbonne háskólann á 6. áratug 20. aldarinnar. Hann vakti áhuga minn á Frakklandi. Að auki hitti ég svo franskan mann í lest í Eurostar fyrir löngu síðan, sem talaði ensku og frönsku til skiptis. Mér fannst það bara nokkuð flott og ákvað að geta gert það í framtíðinni!

Provence er minn uppáhaldsstaður í Frakklandi, nánar tiltekið Luberon svæðið.

Fransk-íslenska viðskiptaráðið var stofnað árið 1990 í tilefni af komu François Mitterand til Íslands. Hlutverk þess er að halda við og auka viðskipti milli Íslands og Frakklands og koma á tengslum milli fyrirtækja og einstaklinga í þessum tveimur löndum, á hinum ýmsu sviðum viðskipta. Ráðið starfar þannig að einn formaður er yfir ráðinu en stjórn ráðsins er skipt í tvennt og er hluti hennar á Íslandi og hluti í Frakklandi. Þessir hlutar eru nokkuð sjálfstæðir en eiga mikið samstarf sín í millum. Allir stjórnarmeðlimir í ráðinu eru ólaunaðir og gefa vinnu sína.

Viðskipti milli Íslands og Frakklands eru í stöðugri aukningu og má nefna að fjöldi franskra ferðamanna til Íslands hefur aukist talsvert á undanförnum árum. Þá hefur mikil þróun átt sér stað í samstarfi Íslendinga og Frakka á sviði rannsókna og vinnslu á jarðvarma.

Ég myndi segja að vaxtarbroddarnir felist í samstarfi á sviði endurnýjanlegra orkumála og í samstarfi á sviði ferðaþjónustu.

Það er afar gefandi að vinna með einstaklingum á Íslandi og í Frakklandi sem eru tilbúnir til þess að starfa í sjálfboðavinnu með það að leiðarljósi að auka viðskipti milli landanna. Oftar en ekki er þetta fólk afar upptekið við sín störf, en gefur sér engu að síður tíma til að huga að málefnum viðskiptaráðsins. Í störfum mínum fyrir Fransk-íslenska viðskiptaráðið hef ég ennfremur kynnst miklum fjölda af fólki sem starfar við málefni sem tengjast báðum löndum. Fyrirtæki á Íslandi og í Frakklandi, er starfrækja viðskipti sem tengjast báðum löndum geta, með þátttöku í Fransk-íslenska viðskiptaráðinu, aflað sér þekkingar og viðskiptatengsla sem reynst geta mikilvæg í starfsemi þeirra til framtíðar.

Síðasta uppfærsla þann 10/06/2021

Efst á síðu