Viðtalið: Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur [fr]

JPEG
Ég á rætur í sveit skammt frá Reykjavík föðurmegin, og í Suður-Þýskalandi og Austurríki móðurmegin, en er fæddur og að hluta uppalinn í Reykjavík.

Mig langaði lengi að verða flugmaður en náttúruvísindi í menntaskóla og uppeldisárin með fjölskyldunni höfðu vinninginn. Pabbi og mamma voru framarlega í fjallamennsku og útivist, stunduðu veiðar, garð- og skógrækt og ferðalög í aútlöndum. Heimilið var umferðarmiðstöð útlendinga, vísindamanna, frægra fjallamanna og innlends eða erlends listafólks. Amma mín, móðurmegin, kom inn í uppeldið með sinn mið-evrópska sjarma. Pabbi fékkst við margar listgreinar og var áberandi í listalífinu í nokkra áratugi og mamma, sem leirmuna-meistari var einn burðarásinn í leirmunaverkstæði fjölskyldunnar (Listvinahúsi).

Ég ólst upp við stórt bókasafn og margs konar tónlist og þegar ég hóf nám við Háskólann í Oslo í jarðvísindum var ég þegar farinn að skrifa fjölbreyttan texta, og teiknaði líka og málaði með vatnslitum, líkt og ég hef svo gert alla tíð síðan.

Ég bætti seinna við mig námi við Háskóla Íslands. Bræður mínir hafa fengist við leirmunagerð, arkítektúr og ýmiss konar myndlist og eini hálfbróðirinn, Erró, var og er hinn spennandi, listfengi ævintýramaður á Ítalíu og seinna í París. Systirin eina grípur líka í pensla.

Allt hefur þetta verkað í þá átt að ég hef reynt að sameina vinnu við náttúrufræði og ritstörf, ferðalög, fjallamennsku, dálitla myndlist og einhvers konar landkönnun.

Fyrstu merkin um áhuga á Frakklandi var lestur þýddra bóka úr frönsku sem eru merkilega margar til á Íslandi. Og auðvitað bíómyndir sem einnig voru furðumargar.

Ég hafði svo raunverulegan áhuga á frönskunámi í menntaskóla. Svo komu til franskir ferðahópar sem ég reyndi að leiðsegja í löngum gönguferðum, aðallega um miðhálendið, á blöndu af frönsku og ensku. Á námsárunum komst ég loks í fyrsta sinn til Parísar, bæði til að heimsækja Erró og til þess að forvitnast um uppreisn unga fólksins. Hún dafnaði jafnt í Noregi sem í Frakklandi og á Íslandi og gerði mig smám saman að marxista. Ég gat staðið með róttækum stúdentum í 5. hverfi og sungið Internationalinn. Auðvitað drukkum við á þessum árum í okkur rit Sartres, Camus og Althussers og nýbylgjuna í franskri kvikmyndagerð. Ég hef nú komið oftar til Parísar en ég hef tölu á, oftast með eiginkonunni Maríu Baldvinsdóttur, og þunginn fluttist af vinstri bakkanum yfir á þann hægri. Tilefnin eru langoftast heimsókn til dótturinnar Helgu Sigríðar sem þar býr og vinnur í hönnunargeiranum, og eiginmannsins, arkítektsins Sofiane Bou-Salah, og svo Erró sem er óþreytandi við að lifa lífinu. Hjónakornin búa í Mýrinni og við njótum orðið borgarinnar í smáum skömmtum og notalegum heimsóknum.

Árið 2006 vann ég við að koma upp Vísindasýningunni í París þar sem Ísland var kynnt sem land vísinda og vistvænnar orku. Mörg hundruð ára gamall ísjaki frá Íslandi sem þá hvíldi fyrir framan Palais de la Découverte var hugverk okkar Sigríðar Snævarr, þá sendiherra Íslands í Frakklandi.
JPEG
Það var ótal margt sem leiddi mig út í nám í jarðfræði og fræðastörf en sköpunarþráin fékk sífellt oftar útrás, og allt í einu fannst mér ég verða að sinna henni meðfram fræðunum og hafa meira frelsi til ferðalaga og ritstarfa, útvarpsvinnu og samveru við fólkið mitt en fékkst við vinnu á rannsóknarstofnun.

Fljótlega hóf ég kennslu á menntaskólastigi og eftir nokkur ár þar og tilraunir við að byggja upp róttæk stjórnmálasamtök leiddist ég sífellt meira út í ferðaþjónustu, ritstörf og almenningsfræðslu; hóf að vinna við þætti í Ríkisútvarpið, bæði hljóðvarp og sjónvarp, og þýða og skrifa bækur. Fram undir 2000 fjölluðu þær um jarðfræði, eldgos, jökla, stjörnufræði, fjallamennsku, áhugaverða staði í landinu og umhverfismál. Smám saman hafði ég þó byrjað að skrifa ljóð og sögur og þegar smásagnasafn frá mér (Vegalínur) hlaut Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness, hljóp mér kapp í kinn og á eftir fylgdu ljóðabækur og skáldsögur, líka fleiri bækur annars eðlis. Titlar eru orðnir yfir 50, þar af sjö ljóðabækur og fjórar skáldsögur. Sjónvarpsþáttagerðinni og gerð heimildarmynda hef ég haldið áfram en svo fengist meðfam við faglega ráðgjöf, gerð safna og sýninga, leiðsögn hér heima en oft á framandi slóðum, allt frá Norður-Kanada og Mongólíu til Ekvador og Suðurskautslandsins. Eftir um áratug í vinstri pólitík varð ég óháður pólitískur gagnrýnandi, aðallega í dagblöðum, en hef ekki reynt fyrir mér í pólitísku starfi. Ákvað 2012 að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands gegn sitjandi forseta vegna þess að ég tel að embættinu eigi að sinna með öðrum hætti en hann hefur gert alltof oft Ég náði að verða þriðji í röð frambjóðenda í kosningunum.

Ég sé margvíslegar breytingar í tengslum við breytta veðráttu. Örfáar eru jákvæðar, t.d. bætt gróðurskilyrði, en flestar neikvæðar. Og það sem veldur áhyggjum er hraði hlýnunarinnar og tengingin við losun gróðurhúsagasa og eyðingu skóga á heimsvísu. Hvort einhvern hluta breytinganna megi rekja til náttúrunnar sjálfrar skiptir ekki meginmáli. Orkueyðsla, hráefniseyðsla, mengun, ofnýting auðlinda og sóun hráefnis og vara er með þeim hætti að það stefnir í veruleg vandræði og mikinn kostnað. Einu mótvægisaðgerðir sem duga felast í samstarfi allra þjóða við að minnka vinnslu og notkun jarðefnaeldsneytis, taka upp hóflegri neysluhætti í iðnríkjunum, efla nýsköpun í orkugeiranum og ráðast gegn fátækt, misrétti og yfirgangi.

Hlýnunin á Íslandi veldur auknum öfgum í veðri, hækkun sjávarborðs og auknum ágangi sjávar við strendurnar, súrnun hafsins og hraðri rýrnun jökla; allt eru þetta áhyggjuefni.

Við framleiðum vistvæna raforku en það dugar skammt því vistspor Íslendinga er það stærsta í heimi. Raunar er mikilvægt að minna á að bæði vatnsafl og jarðhiti eru takmarkaðar auðlindir á Íslandi og rafafl frá þeim vart meira en sem svarar 2-3 meðalstórum kjarnorkuverum. Allt of oft er minnst á Ísland sem einhvers konar orkuforðabúr fyrir Evrópu. Svo er ekki en við getum aftur á móti lagt til mikla þekkingu á beislun jarðhita í mörgum löndum.

Þjóðríkin mörgu sem taka þátt í ráðstefnunni setja fram ólík markmið en samanlangt verða þau að slá verulega á losun gróðurhúsagasa á heimsvísu. En það er ekki nóg. Ráðstefnan verður líka að laða fram aðgerðir til að binda miklu meira kolefni í gróðri en nú gerist, efla nýsköpun í orkugeiranum og nýtingu grænna orkugjafa og halda opnum leiðum sem tryggja að fólk, fyrirtæki og stjórnvöld ríkja finni til ábyrgðar á stöðunni og sjái efnahagslegan ávinning af því að vega á móti hlýnuninni. Ég er vongóður um að þetta takist, þar til annað reynist réttara.

Ef ráðstefnan fellur á prófinu er víst að ekki tekst að halda hækkun meðalhitastigs á jörðinni undir 2-3°C. Hvert stig kostar gríðarlegar fjárhæðir í mótvægisaðgerðum og uppbyggingu. Gleymum því ekki að væri hlýnunin að öllu leyti náttúruleg yrðum við samt að bregðast við á sama hátt en með eitthvað minni kostnaði og án þess að hægt væri að hafa þar áhrif á þróunina, eins og nú er þó hægt. Loftslag á jörðinni mun breytast, það hlýna eða kólna, ef litið er til alda og árþúsunda. Við verðum meira að segja að gera ráð fyrir að nýtt jökulskeið geti riðið yfir, og staðið í 50-100 þúsund ár. Þá fyrst yrði mannkynið að standa saman.

Síðasta uppfærsla þann 15/09/2015

Efst á síðu