Viðtalið: Andréa Massad, vísindamaður á Veðurstofunni [fr]

JPEG
Ég ólst upp í Suður-Frakklandi, milli Marseille og Aix-en Provence, í litlum bæ sem heitir Fuveau og stendur við rætur Sainte Victoire fjalls.

Þar gekk ég í skóla þar til ég lauk stúdentsprófi, 18 ára gamall, en fór þá til Aix-en-Provence að læra jarðfræði við raunvísindadeildina þar. Ég tapaði fljótlega áhuganum á jarðfræði en þessi tvö ár sem ég var í háskólanum sótti ég byrjunarnámskeið í veðurfræði og haffræði og ákvað að snúa mér sem fyrst að þessum greinum.

Á þriðja námsárinu eftir stúdentspróf gat ég skráð mig í jarðvísindadeildina í École Normale Supérieure í París. Tvær námsleiðir voru þá í boði: Önnur með áherslu á jarðvísindi, og þannig meira eins og framhald á jarðfræðináminu mínu, en hin með áherslu á eðlisfræði vökva.

Ég valdi síðarnefndu námsleiðina og lauk licence-prófi og síðar meistaraprófi í aflfræði vökva. Þetta nám gaf mér trausta fræðilega undirstöðu til að skilja betur lögmálin í veðurfræði og haffræði. Ég gat líka beitt þessari þekkingu minni í námi á ýmsum stöðum í rannsóknastofnunum í Frakklandi og erlendis, þar á meðal við Veðurstofu Íslands undir leiðsögn Haralds Ólafssonar prófessors.

Í náminu hér ákváðum við að einbeita okkur að villum í vinda- og hitaspám á Íslandi. Ísland er svo norðarlega að orkuflutningur frá sólinni er minni en í löndum sem liggja nær miðbaugi. Á móti þessari orkuþurrð vega straumar í andrúmslofti og hafi og þeir deila út heildarorkunni sem berst til jarðar. Þá kemur það líka til að Ísland er fjöllótt eyja og af þessu leiða öll þau veðrabrigði sem við verðum vör við á hverjum einasta degi!

Allt hefur þetta í för með sér að veðurspá á Íslandi, og þar með talin hita- og vindaspá, er býsna vandasöm. Rannsóknirnar okkar beinast að því að skilja hvaða eðlisfræðiferlar eru vanmetnir í tölvulíkönunum okkar, sem veldur því að miklu getur skeikað við vinda- og hitahermun. Hvað vindinn snertir þá höfum við áttað okkur á því að áhrif fjalla á loftmassa eru oft vanmetin, því þau eru mjög flókin og þetta gat valdið því að það munaði 10 m/s á spá og veruleika. Ef við náum að skilja betur hvaða ferlar hafa kerfisvillur í för með sér þá tekst okkur draga úr því sem ber á milli módelanna og veruleikans og eftirleikurinn verður þar með auðveldari fyrir veðurspámenn.

Á Veðurstofu Íslands vinna vísindamenn, verkfræðingar og tæknimenn sem fást ekki endilega við veðurfræði því þar eru stundaðar bæði jarðskjálfta- og eldfjallarannsóknir. Það er gaman að þessu samneyti við sérfræðinga á öðrum sviðum en loftslagsvísindum. Ég hef líka verið svo heppinn að geta kennt við Háskólann sem er dýrmætt tækifæri og væri útilokað í Frakklandi fyrr en eftir doktorspróf.

Síðasta uppfærsla þann 14/12/2015

Efst á síðu