Tvær franskar herflugvélar tóku þátt í Dynamic Mongoose heræfingunum [fr]

Frakkar tóku nú sem fyrr þátt í heræfingunum Dynamic Mongoose sem fóru þetta árið fram á Íslandi. Ríkin gátu þannig styrkt samstarf sitt.

Þann 30. júní 2020 hófust æfingar Nató í kafbáta- og herskipavörnum. Heræfingarnar nefnast Dynamic Mongoose og fóru fram á hafinu við Ísland. Þeim lauk föstudaginn 10. júlí og það var sameiginleg flotaherstjórn Nató (MARCOM) sem stjórnaði þeim. Auk Íslands tóku sex ríki þátt í æfingunum: Frakkland, Bandaríkin, Bretland, Kanada, Noregur og Þýskaland. Þau lögðu til fimm ofansjávarskip, fimm kafbáta og fimm kafbátaleitarvélar. Framlag Frakka var tvær leitarvélar af gerðinni Atlantique 2 (ATL2) frá franska flotanum. Þessar vélar eru jafnvígar á margt en hannaðar til að leita uppi kafbáta.

Dynamic Mongoose æfingunum er ætlað að bæta samstarfshæfni og samskipti hersveita bandalagsríkjanna, einkum í því sem lýtur að kafbátavörnum. Íslenska landhelgisgæslan skipulagði móttöku þátttakendanna og hún hefur umsjón með öllum mannvirkjum og búnaði á vegum Nató á Íslandi.

Ísland liggur á hernaðarlega mikilvægum stað á norðurslóðum og í Norður-Atlantshafi og kafbátavarnir eru eitt af því sem glíma þarf við á þessum slóðum. Frakkar standa mjög framarlega í þeim efnum. Franski flotinn býr yfir mikilli kunnáttu sem byggist einkum á Atlantique 2 flugvélunum, marghliða freigátum (FREMM) og þyrlunum um borð. Nýlega unnu freigátur af þessari gerð, Auvergne og Bretagne, „Hook’em“ verðlaun bandaríska flotans 2020 fyrir færni í kafbátavörnum. Það er í annað skipti sem frönsk herskip vinna til þeirra.

Síðasta uppfærsla þann 10/06/2021

Efst á síðu