Tónleikar franska organistans Oliviers Latrys í Hallgrímskirkju [fr]

Concert des organistes Olivier Latry et Shin-Young Lee à Hallgrímskirkja. - PNG

Organisti Notre Dame kirkju í París, Olivier Latry, hélt minnisstæða tónleika á Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju.

Franska sendiráðið styrkti komu Latrys, eins fremsta orgelleikara í heimi. Latry hélt tvenna tónleika á Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju og heillaði áheyrendur með skýrt mótaðri og innblásinni spilamennsku sinni.

Á fyrri tónleikunum lék Latry verk eftir Grigny, Paulet, Mobberley og Duruflé og lauk tónleikunum með spuna. Hann fékk í hendurnar tvö stef sem hann þekkti ekki áður, Gefðu að móðurmálið mitt og Víst ertu, Jesú, kóngur klár og spann út frá þeim á svo tilkomumikinn hátt að áheyrendur voru agndofa. Þá vakti einnig aðdáun hversu vel Latry nýtti hljóðheim Klais-orgelsins og höfðu nokkrir á því orð að þeir hefðu á þessum tónleikum heyrt hljóð og tóna sem þeir hefðu ekki áður heyrt frá þessu mikilfenglega hljóðfæri.

Á síðari tónleikunum lék Latry ásamt Shin-Young Lee, eiginkonu sinni, fjórhenta útgáfu af Vorblóti Stravinskís. Frumkraftur verksins skilaði sér með miklum glæsibrag og unun var að horfa á fallegt samspil þeirra hjóna.

Myndir frá tónleikunum

Síðasta uppfærsla þann 14/09/2015

Efst á síðu