Styrkþegar franska sendiráðsins segja frá

PNG
Franska sendiráðið býður á hverju ári styrki til framhaldsnáms í Frakklandi. Styrkirnir eru veittir til náms af ýmsu tagi. Við báðum nokkra styrkþeganna að segja okkur hvernig gengi og hér koma frásagnir þeirra.

Arndís Gunnarsdóttir


JPEG
„Ég útskrifaðist með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og viðbótargráðu í Evrópurétti og mannréttindum frá KU Leuven í Belgíu árið 2013. Með aðstoð styrksins frá franska sendiráðinu stunda ég nú doktorsnám í mannréttindum við Háskólann í Strassborg. Þangað fluttist ég haustið 2017 ásamt 10 ára gömlum syni mínum og stefni ég á að ljúka námi haustið 2020. Við mæðginin kunnum ákaflega vel við okkur í Strassborg og erum nú bæði farin að tala ágæta frönsku.

Styrkurinn frá sendiráðinu reyndist ekki eingöngu sá fjárhagslegi stuðningur sem ég þurfti á að halda til þess að leggja upp í þetta lærdómsríka ævintýri, heldur hefur viðurkenningin, sem felst í því að þiggja slíkan styrk, stutt okkur yfir ýmsar skriffinnskuhindranir og aðrar áskoranir í Frakklandi. Styrkurinn hefur því reynst mér alveg ómetanlegur og kann ég sendiráðinu ævinlegar þakkir fyrir stuðninginn.“

Viktor Stefánsson


JPEG
Árið 2018 fékk ég inngöngu í tveggja ára, tvöfalt meistaranám sem flutti mig milli tveggja háskóla, þar á meðal hins mikils metna Sciences Po í París.
Sama ár hlaut ég námsstyrk frá franska sendiráðsinu sem var mér ómetanlegur fjárhagslegur stuðningur árið sem ég eyddi í Frakklandi.

Franski háskólinn Sciences Po sá um fyrri hluta þessa meistaranáms, en þaðan hlaut ég MA í Evrópufræðum eftir að hafa eytt heilu skólaári í París. Sciences Po er mörgum Íslendingum ókunnugur en þökk sé góðum styrkjum franska sendiráðsins þá hafa fleiri Íslendingar fengið tækifæri til þess að kynnast þessum frábæra háskóla. Sciences Po er oft kallaður „Forsetaskólinn“ þar sem hann hefur útskrifað 7 af 8 forsetum Frakklands, en hann hefur ítrekað verið nefndur meðal topp 5 bestu háskóla í heiminum í stjórnmálafræði og alþjóðasamskiptum. Mæli ég því með því að fleiri kynni sér þennan skóla og notfæri sér þá þau tækifæri til þess að stunda þar nám.

Að vera námsmaður í París er einstök upplifun sem reyndist afar verðmæt lífsreynsla. Til að byrja með er borgin sjálf iðandi af lífi og menningu og með hverjum mánuði sem líður því auðveldara og sjálfsagðara að taka fullan þátt í menningu og venjum Parísarbúa. Hvort sem það er að næla sér í kaffi og croissant á morgnana fyrir 1,5€ eða sitja við Signu-bakka við fallegt sólsetur með góðum félagsskap að spjalla og sötra vín.

Námið veitti mér einnig ómetanlegt tækifæri til þess að kynnast góðu og metnaðarfullu fólki hvaðanæva úr heiminum, en í dag er stór hluti af mínum nánasta vinahring fólk sem ég kynntist í Sciences Po. Með sína ótrúlegu sögu og sögufræga staði hefur Frakkland óteljandi valmöguleika fyrir ódýrar helgarferðir með skólafélögum til þess að skoða og skapa góðar minningar.

Það að flytja tímabundið frá Íslandi og setjast að í öðru Evrópuríki, líkt og Frakklandi, er að mínu mati nauðsyn fyrir Íslendinga. Það að stíga út fyrir þægindarammann og hljóta nýjar krefjandi upplifanir sem gefa manni samanburð og jafnvel aðra sýn á heiminn. Allt frá því að læra á nýjar samfélagsreglur, eða venjast lengri biðröðum, eða upplifa sigurtilfinningu við það að „sigrast“ á skrímslinu sem er franska bjúrókrasían.

Árið mitt í Frakklandi var skemmtilegasta og lærdómsríkasta árið í náminu mínu og mun ég því vera ævinlega þakklátur franska sendiráðinu í Reykjavík fyrir að hafa styrkt mig til náms og gert mér kleift að útskrifast úr þessum frábæra háskóla með þessar mögnuðu minningar.
Takk fyrir mig!

Elísabet Rún


PNG
Síðasta haust rættist langþráður draumur þegar ég hélt til náms í myndasögugerð við École européenne supérieure de l’image í Angoulême, eftir útskrift úr teiknideild Myndlistaskólans í Reykjavík.

Ég hóf nám í La classe internationale de la bande dessinée ásamt sjö teiknurum víðs vegar að úr heiminum. Við tóku níu mánuðir með ýmiss konar myndasöguæfingum og vinnustofum með margs konar kennurum, auk þess sem við unnum hvert og eitt að sjálfstæðu verkefni og í lokin útgáfu sameiginlegrar bókar.

Ég lagði áherslu á heimildamyndasögur og skrifaði meðal annars um Klaustursmálið, loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna og geðræn vandamál.

Nú þegar þessu eins árs námi er lokið held ég heim til Íslands með nýjar hugmyndir og reynslu sem mun nýtast til að vinna sjálfstætt á sviði myndasagna og myndskreytinga.

Gabriel Sölvi Windels


JPEG
Sumarið 2018 hlaut ég styrk franska sendiráðsins til að flytja til Parísar og hefja þar meistaranám í Université Paris Descartes sem er framarlega í læknavísindum á heimsvísu. Dvölin hefur reynst mér verðmæt lífsreynsla, bæði vegna námsins og vegna þeirrar lífsreynslu að flytja einn í stórborg í útlöndum og standa þar á eigin fótum.

Fyrstu mánuðirnir byrjuðu rólega þar sem ég þurfti að kynnast háttum innlendra og ná áttum. Pressan jókst síðan fljótt þegar námið fór af stað. Háskólasamfélagið í París er fornt og á rætur að rekja til ársins 1150 með stofnun upprunalega Université de Paris og er mín stofnun rétt eins og aðrar rótgróin og leggur mikla áherslu á akademíu og strangan aga. Búist er við vel unnum verkefnum og að rétt skuli vera rétt. Ég lærði því að skipuleggja mig betur ásamt vinnubrögðum og að hafa alla pappíra og reglur á hreinu, en þetta gildir um franskt samfélag yfirhöfuð þar sem skrifræðið hefur þróast lengi. Á sama tíma þurfti ég að feta mig í nýrri borg, sinna flutningum og læra hvar ég get keypt mér mjólk og hvernig maður biður um bagettu. Eftir einhvern tíma tókst þetta þó og núna veit ég hvar ég finn allt það besta í franskri matarmenningu, ásamt því að geta átt samræður á frönsku.

Ólíkt Reykjavík, sem er einangruð landfræðilega og sögulega, þá er París alþjóðleg borg sem tengist umheiminum sögulega og í alþjóðastjórnmálum, ásamt því að vera heimili yfir 12 milljón íbúa. Í París fékk ég því víðari sýn á umheiminn. Ég lærði um sögu Parísar, sem er ólgandi og áhugaverð, og fékk á sama tíma að sjá þessa sögulegu staði með eigin augum.

Hvort sem ég kýs að vera áfram í París eður ei, þá veit ég að reynslan hér hefur undirbúið mig vel fyrir framtíðarstarf hvar sem er. Ég lærði að stíga út fyrir þægindarammann og að það er í lagi að ekki sé allt öruggt og fullkomið sem er aldrei raunin þegar maður flytur til útlanda. Á næsta ári hyggst ég klára meistaranámið í París þar sem ég sérhæfi mig í nýstárlegum lækningameðferðum og genatjáningu. Ég fæ að taka 6 mánaða starfsnám á rannsóknarstofu og ef allt gengur upp gæti ég verið kominn með fulla vinnu eftir þá reynslu með rétta fólkinu og í rétta umhverfinu. Ég þakka franska sendiráðinu fyrir að styrkja mig í þessu einstaka tækifæri til að upplifa franska menningu og vísindi.

Tryggvi Örn Úlfarsson


PNG
Ég heiti Tryggvi og er doktorsnemi í heimspeki í París. Verkefninu mínu er ætlað að vera framlag til sögu heimspekinnar og kynna hreyfingu í franskri heimspeki sem hefur fengið allt of litla athygli alþjóðlega og jafnvel líka innan Frakkands.

Aðalatriðið fyrir mér er að skilja heimspekina sem bergmál þess sem er hugsað annars staðar í menningunni. Hreyfingin, sem ég er að skoða, stundum kölluð heimspeki hugtaksins (philosophie du concept), nálgast heimspekina samhliða sögu vísindanna og varpar þannig ljósi á nokkur grundvallarhugtök heimspekinnar, til dæmis hugtakið um veru(leika), hlut, efni og skynsemi.

Að heimspekingar tali um vísindin er vissulega ekkert nýtt en undanfarið hefur tilhneiging þeirra verið að láta sér nægja að draga upp einfaldaða og frosna mynd af vísindunum eins og heimspekingarnir telja að þau ættu að vera, einhvers konar rökleg bygging forsendna og niðurstaðna. Afleiðingin er að vísindaleg hugsun og sköpun verður sífellt óskiljanlegri, svo mjög að virtir heimspekingar geta komist upp með að fullyrða að vísindin hugsi ekki! Heimspeki hugtaksins skoðar vísindin hins vegar í sögulegri framvindu sinni og leitast við að skilja hvað gerist þegar kenningum er kollvarpað og ný hugtök verða til eða gömul hugtök eru endurhugsuð. Þannig, vil ég meina, geta heimspekingar og aðrir skilið hvað er að hugsa í vísindum og jafnvel hvað er að hugsa yfirhöfuð.

Lífið í París hefur verið upp og ofan en það er hægt að tína til margt jákvætt þegar ég hugsa út í það. París er auðvitað frábær þegar kemur að menningu og listum með bestu listasöfn í heimi og alltaf eitthvað að gerast. Fyrir mig skiptir mestu hvað heimspekin er lifandi. Það eru trúlega hvergi annars staðar saman komnir jafnmargir heimspekingar á jafnlitlu svæði. Ég hef getað setið tíma hjá heimsfrægum heimspekingum og einnig hjá nokkrum sem ættu skilið að vera heimsfrægir. Heimspekin er þar að auki ekki lokuð inni í örfáum heimspekideildum, heldur í dagblöðum, sjónvarpi og í samræðum venjulegs fólks. París hefur einnig sama kost og aðrar stórborgir að það er hægt að láta sig hverfa í fjöldann þegar það hentar. Þannig er hægt að vera félagsljón og vinnuhestur á víxl sem hugnast mér mjög vel.

Ásgerður Ólöf Ásgeirsdóttir


PNG
Ég heiti Ásgerður Ólöf Ásgeirsdóttir og er 24 ára gömul. Ég útskrifaðist með BA-gráðu í stjórnmálafræði og alþjóðalögfræði sem aukagrein núna í júní en í ágúst mun ég hefja tveggja ára mastersnám við Sciences Po [mikils metinn háskóli í stjórnmálafræðum] í París í International Public Management. Námið er samblanda af opinberri stjórnsýslu og alþjóðlegum samskiptum.

Ég er ofboðslega spennt fyrir því að flytjast til Parísar og kynnast samnemendunum! Ásamt námi ætla ég að skrá mig í félag skólans fyrir Unga Evrópusinna og félag fyrir fólk sem hefur áhuga á ræðumennsku. Þeir sem ekki kunna þegar frönsku eru skyldugir til að taka frönskuáfanga og maður fær þá áfanga metna inn í námið, sem mér finnst mjög sniðugt!

Eftir Sciences Po hyggst ég sækja um í starfsþjálfun í Brussel og vinna að evrópsku samstarfi eða finna starfsþjálfun hjá UN Women, einu stofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur eingöngu í þágu jafnréttis um allan heim.

Ég veit þó fyrir víst að margar leiðir opnast fyrir mér með því að fara til Parísar og því er ég afar þakklát franska sendiráðinu á Íslandi fyrir að veita mér þennan skólastyrk!

Dagur Tómas Ásgeirsson


PNG
Ég útskrifaðist með BSc gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands í júní sl. Lokaeinkunn mín úr náminu var 9,98 og hlaut ég eftirsóttan styrk til framhaldsnáms í París, sem er sögð hafa fleiri stærðfræðinga á ferkílómetra en allar aðrar borgir í heiminum. Þar sem ég stefni á starfsferil innan akademíunnar, við rannsóknir og kennslu í stærðfræði, er París draumaáfangastaður fyrir mig.

Styrkurinn er til tveggja ára meistaranáms og er fjármagnaður af Fondation Sciences Mathématiques de Paris ásamt Sendiráði Frakklands á Íslandi. Í grunnnáminu hér heima hef ég aðallega fengist við hreina stærðfræði, þ.e. stærðfræði án sérstakrar hagnýtingar í huga, heldur einungis stærðfræðinnar sjálfrar vegna. Því hyggst ég halda áfram í meistaranáminu, og síðan í doktorsnáminu sem ég stefni á að meistaranámi loknu.

Spennandi verður að flytja til Parísar og takast á við þær áskoranir og ævintýri sem bíða mín þar – þetta er einstakt tækifæri til að stunda nám undir leiðsögn færustu stærðfræðinga heims.

Síðasta uppfærsla þann 07/10/2019

Efst á síðu