Stríðslokanna 1918 minnst [fr]

Að morgni 11. nóvember 2018 var haldin tilfinningaþrungin athöfn í París til að minnast þess að 100 ár voru liðin frá lokum fyrri heimsstyrjaldar. Viðstaddir voru tugir þjóða- og ríkisstjórnaleiðtoga, þeirra á meðal forseti Íslands. Allt árið 2018 fóru raunar fram minningarathafnir víða um Frakkland og erlendis.

Fulltrúar úr sendiráðum þeirra þjóða, sem bárust á banaspjót í heimstyrjöldinni, ásamt fulltrúum íslenskra stjórnvalda, komu saman í Fossvogskirkjugarði þennan sama morgun til að minnast þeirra sem hafa fallið í átökum víða um heim.

11. nóvember var tilefni til að heiðra minningu tuga miljóna fórnarlamba þessa skelfilega stríðs, hinna látnu, hinna særðu, ekknanna og munaðarleysingjanna. Þessi minningarathöfn var okkur einnig ástæða til að velta fyrir okkur hvaða lærdóm má draga af stríðinu, sem átti að vera það síðasta sem yrði háð, en tuttugu og einu ári síðar skall á önnur heimsstyrjöld, ennþá blóðugri. Eins og forseti Frakklands, Emmanuel Macron, komst að orði í ræðu sinni: «Á þeirri öld, sem liðin er frá öllum þeim skelfilegu fórnum sem karlar og konur urðu að færa 1914-1918, höfum við komist að raun um hve friðurinn er fallvaltur.“ Og: „Sá dýrkeypti friður, sem tókst árið 1918, steytti á brestum í heimsskipaninni og hnignun lýðræðisríkjanna upp úr 1930.“

Þetta er undirrótin að því að Frakkar buðu þúsundum frammámanna í stjórnmálum, forsvarsmönnum alþjóðastofnana og samtaka sem eru óháð ríkisvaldi, forstjórum fyrirtækja, sérfræðingum og hugsuðum úr gjörvöllum heiminum á fyrstu Friðarráðstefnuna í París. Ráðstefnan stendur frá 11. til 13. nóvember og er tilgangurinn sá að hugsa í sameiningu um hvernig má efla marghliðasamskipti og alþjóðasamvinnu.

Eins og sjá má á sáttum Frakka og Þjóðverja, þá er sagan ekki forspá um framtíðina. En í þessum heimi þar sem óvissan ríkir þurfum við að vera á varðbergi sem aldrei fyrr.

Sendiráð Frakklands og Þýskalands, ásamt Háskóla Íslands, hafa skipulagt alþjóðlegt málþing í Þjóðminjasafninu þann 23. nóvember næstkomandi undir fyrirsögninni: „Arfleifðin frá 1918: Fullveldi, ný ríki og heimsveldahrun eftir fyrri heimsstyrjöld.“ Annette Becker, franskur sagnfræðingur sem hefur þetta tímabil að sérsviði, tekur þátt í málþinginu sem er öllum opið.

Síðasta uppfærsla þann 12/11/2018

Efst á síðu