Sendiherrann hefur orðið [fr]

JPEG - 644.4 ko
Réception du 14 juillet, en plein air.

Kæru lesendur,

Covid-19 faraldurinn hefur í marga mánuði verið efst á baugi í innlendum fréttum og á alþjóðavísu og allir haft vara á sér. Hvern hefði órað fyrir því að veiran breiddist jafnhratt út um alla heimsbyggðina og snerti okkur öll, beint eða óbeint? Til að sinna störfum sínum varð starfsfólk sendiráðsins að bregðast við þessum óvæntu aðstæðum, laga sig að þeim og nota hugvitssemina til að halda uppi nauðsynlegri þjónustu. Þegar faraldurinn stóð sem hæst vann starfsliðið á tveimur vöktum, helmingur á morgnana, hinn síðdegis, annar á staðnum, hinn að heiman. Á Íslandi tókst fljótt og vel að ná tökum á faraldrinum og sendiráðið gat innan skamms aftur tekið upp venjulega starfsemi.

Engu að síður verður að fara að öllu með gát og að allt verði aftur eins og var er ekki í spilunum sem stendur. Hvað gerist er óljóst og eins hvað faraldurinn stendur lengi, og óvissa er um hvaða árangri meðferðir koma til með að skila eða þá bóluefni. Á þessum óvissutímum er örðugt að gera áætlanir fram í tímann. Það á jafnt við í einkalífi sem í atvinnu, innanlands sem á alþjóðavettvangi.

Vegna Covid-19 hefur sendiráðið þurft að aflýsa eða fresta ýmsum atburðum og draga úr umfangi annarra. Það átti ekki síst við um 14. júlíhátíðina, sem var haldin sem nestisferð undir beru lofti, þótt ekki viðraði sem best. En eins og þið sjáið á lestri þessa fréttabréfs þá hefur starfslið sendiráðsins hvergi dregið af sér við að hnýta bönd og byggja brýr milli Íslands og Frakklands.

Nokkur endurnýjun hefur orðið á starfsliðinu undanfarið með komu Adeline, sem tekur við forstöðu í Alliance Française í Reykjavík, Vincents, nýs varnarmálafulltrúa með aðsetur í Kaupmannahöfn, og Estherar, sem verður í starfsnámi í sendiráðinu.

Eins og aðrar vinaþjóðir í Evrópu, horfast Íslendingar og Frakkar nú í augu við tvenns konar vanda, í heilbrigðis- og efnahagsmálum. Gripið hefur verið til margháttaðra aðgerða til að verja störfin og þá atvinnuvegi sem mest hefur mætt á. Í báðum hagkerfum okkar hafa fleiri aðgerðir verið boðaðar í því skyni að hefja viðspyrnu sem og fjárfestingar til að hjálpa atvinnulífinu að þrauka og efla samkeppnishæfnina með áherslu á umhverfismál. Við eigum eftir að tala um tímann fyrir og eftir faraldur. Mestu skiptir að draga sem mestan lærdóm af þessum hremmingum, þar á meðal að því er varðar alþjóðasamvinnu, til að komast út úr þeim sterk, samheldin og einhuga.

Síðasta uppfærsla þann 15/09/2020

Efst á síðu