Sendiherrann hefur orðið [fr]

JPEG
Ágætu lesendur fréttabréfs sendiráðsins,

Eftir jólahátíðina, sem ég varði í vetrarríki í Reykjavík í faðmi fjölskyldunnar og við að prófa uppskriftir í matreiðslutímaritinu Gestgjafanum, þá hófst árið 2020 með hefðbundinni móttöku forseta Íslands og eiginkonu hans á Bessastöðum 1. janúar. Nokkrum dögum síðar var ég, ásamt forsetafrúnni, viðstaddur opnun listsýningarinnar „Fresh Winds“. Þessi sýning er haldin á tveggja ára fresti í Garði. Um fjörutíu listamenn hvaðanæva að úr heiminum, en með aðsetur í Garði, tóku þátt í sýningunni að þessu sinni, þar af sjö franskir. Það er Mireya Samper, listakonan fjölhæfa og frjóa, sem stendur á bak við sýninguna.

Í janúar senda Frakkar áramótakveðjur og strengja áramótaheit og koma saman til að gæða sér á kóngakökum. Sendiráðið hélt þessa hefði í heiðri og bauð til sín helsta samstarfsfólki þann 17. janúar í því skyni. Franska sendiráðið og það þýska halda jafnan upp á fransk-þýska daginn 22. janúar þegar minnst er Élysée- og Aachensáttmálanna. Við heimsóttum tvo skóla í Reykjavík þar sem kennd var franska og þýska og ásamt hinum þýska starfsbróður mínum tók ég þátt í spurningaleik að viðstöddum stúdentum í Háskóla Íslands.

Á efnahagssviðinu þessa fyrstu mánuði ársins er helst að geta heimsóknar yfirmanns efnahagsþjónustu sendiráðanna á Norðurlöndum, sem hefur aðsetur í Stokkhólmi, vinnufundar eitt hádegið með stjórn Fransk-íslenska viðskiptaráðsins og undirbúnings að ferð fulltrúa samgönguráðuneytisins íslenska til Frakklands.

Á 20 ára afmæli Frönsku kvikmyndahátíðarinnar var í boði vönduð dagskrá á vegum sendiráðsins og Alliance Française, bæði fyrir áhorfendur á Reykjavíkursvæðinu en jafnframt fyrir þá sem búa á Akureyri og Ísfirði. Hátíðin var sett 23. janúar með sýningu á „Fögru veröld“ í Bíó Paradís. Myndin hefur slegið í gegn og á sýningunni voru fjöldamargir boðsgestir, þar á meðal frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Nokkrum dögum síðar veitti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra frönskum og íslenskum sigurvegurum verðlaun í stuttmyndakeppni Sólveigar Anspach. Sígildar franskar rökkurmyndir voru sýndar á kvöldvöku, undir leiðsögn Yrsu Sigurðardóttur og skömmu síðar, þegar til landsins komu fulltrúar frá bókaútgáfunni La Martinière, gafst mér færi á að ræða við íslenska rithöfundinn Ragnar Jónasson en glæpasögur hans njóta mikilla vinsælda í Frakklandi.

Skammt frá Siglufirði, þar sem lögreglumaðurinn ungi í bókum Ragnars, Ari Þór, greiðir úr flóknum brotamálum, er Akureyri. Þar lá La Motte-Picquet, freigáta franska flotans, við festar frá 27. febrúar til 3. mars.

Í marsmánuði verður franskri tungu gert hátt undir höfði. Ýmsir viðburðir, oft í samstarfi við aðrar þjóðir, sýna hve hinn frönskumælandi heimur er fjölbreyttur og þróttmikill. Ekki missa af þessu!

Síðasta uppfærsla þann 08/04/2021

Efst á síðu