Sendiherrann hefur orðið [fr]

Kæru lesendur,

Að loknum sumarleyfum og heimkominn frá París þar sem ég sat ásamt starfssystkinum mínum á ráðstefnu sendiherra er komið að því að taka aftur upp þráðinn með Fréttum úr sendiráðinu.

Í þessu bréfi er einkum ætlunin að fjalla um liðna viðburði en einnig að kynna eitthvað af því sem stendur til. Ég byrja þá á því að nefna komu Lucie Courtade, ungrar stúlku í starfsnámi í sendiráðinu, og Jeans-Marcs Bouchets, nýs konsúls sem tók við af Olivier Dachicourt.

Af verkefnum síðustu mánaða má nefna ferð til Akureyrar í tilefni af komu franskrar freigátu þangað og einnig ferð til Fáskrúðsfjarðar til að taka þátt í Frönskum dögum sem eru mjög skemmtilegir. Í fyrsta skipti í sumar skiptust vinabæirnir Gravelines og Fáskrúðsfjörður á ungum nemendum í starfsnámi, sem verður til að vinaböndin milli bæjanna styrkjast enn

Í maí síðastliðnum stóð sendiráðið fyrir fundi franskra sendinefnda á Norðurlöndum. Fundurinn var haldinn í Reykjavík og fjallaði um málefni norðurslóða. Franskir þátttakendur voru um sextíu að tölu, af alls kyns sviðum, og var fundurinn haldinn rétt eftir að Íslendingar tóku við formennsku í Norðurskautsráðinu.

Mér hlotnaðist sú ánægja að taka á móti sendinefndum frá frönskum fyrirtækjum, sem nutu fyrirgreiðslu Business France, og ennfremur Olivier Cadic öldungadeildarþingmanni. Hann kom nú í fyrsta skipti til Íslands og sá með eigin augum sköpunarkraftinn í Íslendingum og þróttmikil tengsl Íslendinga og Frakka.

Sendiráðið stóð fyrir samkomu 14. júlí síðastliðinn og þangað komu meira en 300 franskir og íslenskir gestir. Samkoman var haldin nálægt gömlu höfninni í Reykjavík þar sem skólaskip franska flotans, „Étoile“ lá við festar. Skipið er góletta og fjölmargir gengu um borð og skoðuðu sig um.

Margir menningarviðburðir á vegum Alliance Française, eða í samstarfi við stofnanir eða íslenska hátíðahaldara, hafa sett svip sinn á þessa síðustu mánuði. Þar má nefna Bókmenntahátíð í Reykjavík þar sem David Foenkinos var einn þátttakenda.

Á næstu vikum verður sendiráðið önnum kafið við að undirbúa þátttökuna í Arctic Circle sem er orðið nokkurs konar Davosráðstefna norðurslóða. Og síðan er það undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu þar sem landslið Íslands og Frakklands eigast við í Reykjavík þann 11. október næstkomandi. Áfram Frakkland!

Síðasta uppfærsla þann 01/10/2019

Efst á síðu