Sendiherrann hefur orðið [fr]

14. júlí er þjóðhátíðardagur franska lýðveldisins og hefur verið haldinn hátíðlegur á hverju ári frá 1880.

Þennan dag fer jafnan fram viðamikil hersýning á Champs-Élysées í París, haldnir eru útidansleikir og efnt til flugeldasýninga. En 14. júlí kemur líka við sögu utan landsteinanna því hann tengist töku Bastillunnar og gildum frönsku byltingarinnar sem birtust í mannréttinda- og borgarayfirlýsingunni árið 1789.

Bastillan var bæði virki og fangelsi og tákn um gerræði konungsvaldsins. Atburðurinn þegar múgurinn í París náði virkinu á sitt vald 14. júlí 1789 er oft talinn marka upphaf frönsku byltingarinnar. Sumir sagnfræðingar vilja jafnvel rekja jarðveg hennar til gossins í Lakagígum árið 1783. Það sem vakti fyrir lýðnum í París með töku Bastillunnar var samt ekki endilega að leysa fáeina fanga úr prísund, heldur að komast yfir púður og hergögn til að verjast hersveitum Lúðvíks 16., en þær höfðu verið kvaddar út til að kæfa múgæsingarnar.

Ári síðar, 14. júlí 1790, var haldið upp á töku Bastillunnar í mikilli hátíð um allt land, svokallaðri „sambandshátíð“. Það var Lafayette markgreifi, foringi varnarsveitar Parísar, sem hafði frumkvæðið að hátíðahöldunum. Þau áttu að þjappa þjóðinni saman og slá þannig á byltingarhitann. Það fór á annan veg; byltingin æddi áfram og ruddi öllu úr vegi sem fyrir varð og opnaði Napóleon Bonaparte leiðina til valda.

14. júlí vísar því í senn til töku Bastillunnar árið 1789 og tilraunarinnar til þjóðarsáttar árið 1790. Það var undir þeim formerkjum að 6. júlí 1880 tókst að afla samþykkis franska þingsins, þar sem lýðveldissinnar höfðu meirihluta, við að 14. júlí yrði þjóðhátíðardagur.

Þótt dagurinn sé þjóðhátíðardagur Frakka á hann hljómgrunn um allan heim því hann er tákn um baráttuna gegn geðþótta og gerræði. Á Íslandi hafði Magnús Stephensen konferensráð miklar mætur á Jean-Jacques Rousseau og dreifði nýjum hugmyndum með stofnun „Hins íslenska landsuppfræðingarfélags“ og með útgáfu eins fyrsta íslenska tímaritsins, „Minnisverðra tíðinda“ sem fjallaði ítarlega um frönsku byltinguna.

Ég var ungur maður í utanríkisþjónustu Frakklands og starfaði í Austur-Berlín árið 1989, þegar tveggja alda afmælis frönsku byltingarinnar var minnst. Fáum mánuðum síðar varð ég vitni að því að máttur þessara hugsjóna frá upplýsingaöld hafði ekkert skerst. Hugmyndirnar um mannréttindi, frelsi, jafnrétti og réttlæti eru undirstöður lýðveldisríkja á okkar tímum og brenna jafnheitt á okkur nú sem fyrr. Því eru gildar ástæður fyrir alla að fagna 14. júlí og úrslitaleik franska landsliðsins í fótbolta. Áfram Frakkland!

Síðasta uppfærsla þann 08/04/2021

Efst á síðu