Sendiherrann hefur orðið

Aftur seilist ég í pennann, eða lyklaborðið öllu heldur, eftir heldur langt hlé. Þessir síðustu mánuðir hafa verið óvenjuannasamir í sendiráðinu.

Meðal þess helsta í marsmánuði var heimsókn fjölhliða freigátunnar „Provence“, hátæknilegs og öflugs skips í franska flotanum og var efnt til móttöku um borð þann 8. mars fyrir Frakka á Íslandi.

Einnig ber að geta tveggja vikna hátíðar franskrar tungu þar sem skipulagðir voru alls kyns menningarlegir og fræðandi viðburðir í samstarfi við Alliance Française, ratleikur um Reykjavík, tónleikar í Stúdentakjallaranum og líka á Pablo Discobar þar sem neistaði af plötusnúðinum DJ FABulous.

Jafnframt þessu fór fram hátíðin „Goût de France“ sem haldin er árlega í tilefni af því að frönsk matgerðarlist hefur verið sett á heimsminjaskrá UNESCO. Fimm veitingahús í Reykjavík tóku þátt í hátíðinni. 21. mars var svo boðið til hádegisverðar í bústað franska sendiherrans undir yfirskriftinni „Íslenskar bókmenntir og frönsk matgerðarlist“. Íslenskir rithöfundar, mæltir á frönsku, sátu hádegisverðinn, ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem tók fimlega þátt í samræðunum sem allar fóru fram á frönsku.

Í apríl fór fram frönskukeppni framhaldsskólanema. Veitt voru verðlaun fyrir stutt myndbönd á frönsku, sem nemendurnir höfðu tekið upp. Þeir sýndu mikið kapp og eiga það að þakka kennurunum sem hafa lagt sig í framkróka við að glæða áhuga þeirra á frönskunámi.

Í tilefni af jarðhitaráðstefnu á Íslandi kom hingað til lands, í boði sendiráðsins, Françoise Bey, varaforseti Strassborgarsvæðisins. Hún hélt erindi um það hvernig íbúar tækju framkvæmdum við jarðhitanýtingu. Þessa ráðstefnu sátu líka fulltrúar frá GEODEEP klasanum franska, sem er í samstarfi við íslenska klasann.

Að lokum skal minnst á nefnd fjögurra öldungadeildarþingmanna en þeir lögðu leið sína hingað ásamt einum starfsmanni. Þeir áttu fundi með æðstu ráðamönnum þjóðarinnar og komu víða við til að kynna sér íslensk málefni. André Gattolin var formaður nefndarinnar og er hann forseti vináttuhóps Frakklands og Norður-Evrópu í öldungadeildinni. Nefndin ræddi fjöldamörg mál við Íslendingana, allt frá tvíhliða samvinnu til tengslanna við Evrópusambandið, þróun ferðamennsku og endurnýjanlegrar orku og málefni norðurslóða.

Margt er á döfinni næstu vikur þrátt fyrir marga frídaga í maí. Meira um það síðar.

Dernière modification : 28/05/2018

Haut de page