Sendiherrann hefur orðið [fr]

JPEG
Kæru vinir sendiráðs Frakklands á Íslandi,
Ég ávarpa ykkur hér fáeinum dögum eftir að ég kom til Reykjavíkur og nýbúinn að afhenda Guðna Jóhannessyni forseta Íslands trúnaðarbréfið, 10. október 2017, daginn eftir að íslenska landsliðið í fótbolta vann sér sæti á HM með svo frábærum hætti. Áfram Ísland!

Ég hef varið starfsævinni í utanríkisþjónustunni og auðnast að þjóna í ýmsum heimsálfum og sinna margs konar störfum við sendiráð og konsúlsskrifstofur. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem ég gegni starfi sendiherra og mér er vel ljóst hve mikla ábyrgð forseti Frakklands lagði mér á herðar. Ég mun kappkosta að rísa undir skyldum mínum og veit að til þess get ég reitt mig á stuðning fransks og íslensks samstarfsfólks míns í sendiráðinu og líka á hvert og eitt ykkar, til að vináttusamband og samstarf þjóðanna beggja megi blómstra.

Ísland nýtur mikillar hylli í Frakklandi, eins og marka má af feiknarlegum vinsældum íslenskra rithöfunda og þeim tugum þúsunda franskra ferðamanna sem leggja leið sína til „lands elds og ísa“ og fjölgar stöðugt. Frakkar eru forvitnir og áhugasamir um Ísland og öfugt. Alþjóðasamskipti aukast í sífellu og Frakkland og Ísland geta skipst á og deilt saman mjög mörgu því bæði löndin kljást, í mismunandi mæli, við sömu áskoranir og sömu spurningar varðandi framtíðina. Þess vegna eru öll svið undir í samtali þjóðanna, frá menningarmálum til efnahags- og ferðamála að ógleymdum öryggis- og umhverfismálum.

Kæru vinir sendiráðs Frakklans á Íslandi,
Ég vonast til að mega hitta ykkur sem flest á næstu mánuðum og bið ykkur að fylgjast vel með því sem er á seyði hjá sendiráðinu, á frönsku og íslensku, á vefsetrinu okkar og á Facebook.

Með bestu kveðjum,

Síðasta uppfærsla þann 11/10/2017

Efst á síðu