Sendiherrann hefur orðið

image7

Nú er lokið langri kosningahrinu í Frakklandi sem hófst 23. apríl með fyrri umferð forsetakosninga og lauk 18. júní með síðari umferð þingkosninga, og er þá ekki talið með forvalið fyrir forsetakosningarnar.

Í húsakynnum franska sendiráðsins í Reykjavík var útbúinn kjörstaður fyrir þessar kosningar. Frakkar búsettir á Íslandi létu hressilega til sín taka í kosningunum þessa fjóra sunnudaga og var þátttakan meiri en í kosningunum 2012 og langtum meiri en á öðrum kjörstöðum utan Frakklands.

Frökkum, sem búa á Íslandi, hefur fjölgað ört síðastliðin fimm ár. Þeir voru 290 árið 2012 en eru nú 539. Þeim sem hafa innritað sig á kjörskrá hefur fjölgað að sama skapi: Úr 229 í 324 og eftir því sem nær dró kosningum fjölgaði skráningum. Sendiráðið vann ötullega að því að koma á framfæri upplýsingum um hvernig hægt væri að kjósa erlendis, með góðum árangri.

img7

Kosningaþátttakan í Reykjavík var í öllum tilvikum talsvert meiri 2017 en 2012: Í báðum umferðum forsetakosninganna (66,98% og 74,53%) og þingkosninganna (43,83% og 39,20%). Þátttakan í Reykjavík var líka langtum meiri en öðrum löndum sem tilheyra þriðja kjördæmi, en í því eru, ásamt Íslandi, Stóra-Bretland, Írland, Noregur, Svíþjóð, Danmörk, Finnland og Eystrasaltsríkin þrjú. Þátttakan á Íslandi í annarri umferð forsetakosninganna var þannig 74,53% en meðaltalið í kjördæminu var 51,46%. Í annarri umferð þingkosninganna var þátttakan á Íslandi 39,20% en meðaltalið í kjördæminu var 17,54%.

Sama niðurstaða fæst ef borin er saman kosningaþátttaka Frakka á Íslandi við meðalþátttöku allra Frakka sem búsettir eru erlendis, en hún hefur raunar alltaf verið slök. Þátttakan á Íslandi var yfir tvöfalt sinnum meiri en þátttakan í þeim 11 kjördæmum sem ná til allra Frakka á erlendri grund.

image5

Ekki hefði verið unnt að halda kosningarnar nema fyrir aðkomu fjöldamargra sjálfboðaliða sem komu að framkvæmd þeirra og talningu atkvæða. Þessum sjálfboðaliðum eru færðar innilegar þakkir fyrir þegnskapinn.

Síðasta uppfærsla þann 28/07/2017

Efst á síðu