Sendiherrann hefur orðið

Árið 2017 byrjaði með tveimur góðum fréttum:

Í byrjun febrúar lá fyrir uppgjör á viðskiptum landanna á síðasta ári og varð ljóst að útflutningur til Íslands hafði aukist (var 91,6 miljónir evra, 27% vöxtur) og munar þar mest um sölu bifreiða. Innflutningur frá Íslandi jókst hins vegar ekki (281 miljón evra, 2,3% samdráttur) og var mestmegnis sjávarafurðir.

Snemma árs 2017 hófst líka Franska kvikmyndahátíðin sem verður æ meira hátíð kvikmynda á frönsku. Kanadíska sendiráðið tók virkan þátt í hátíðinni og stóð fyrir komu kanadísks leikara sem svaraði spurningum áhorfenda um mynd sína. Það sem setti ekki síst mark sitt á hátíðina að þessu sinni var að verðlaun í minningu Sólveigar Anspach voru nú veitt í fyrsta sinn. Sendiráðið og Alliance française í Reykjavík efndu til þessara verðlauna, með stuðningi Reykjavíkurborgar og framleiðenda mynda Sólveigar og fyrirtækja sem dreifa þeim. Verðlaunin verða veitt á hverju ári þeirri kvikmyndagerðarkonu sem þykir hafa gert bestu stuttmynd, á frönsku eða íslensku, í upphafi ferils síns. Verðlaunagripurinn er lítil stytta sem listakonan Mireya Samper hannaði. Hann var nú afhentur í fullum kvikmyndasal að viðstöddum forsetafrú Íslands, borgarstjóranum í Reykjavík og leikkonunni Diddu sem Sólveig Anspach hafði miklar mætur á. Verðlaunahafinn var franskur leikstjóri, Valérie Leroy, valin úr hópi fleiri en 50 keppenda frá Frakklandi, Íslandi, Kanada, Haítí og Búrkína Fasó. Þessi fyrsta verðlaunahátíð tókst með miklum ágætum og var staðfesting á því hvað Sólveig skipaði ríkan sess í huga fólks og ennfremur á lifandi áhuga á auknum menningarlegum tengslum landanna beggja.
JPEG

Aðrir viðburðir, sem ber hátt á næstum vikum, er koma franska leikstjórans Alains Guiraudies á Stockfish-kvikmyndahátíðina (23. febrúar - 5. mars), málþing Fransk-íslenska viðskiptaráðsins (FRÍS) um ferðamennsku í Háskólanum í Reykjavík 17. mars, Goût de France/Good France veislan sem verður haldin hátíðleg í þriðja sinn í sex veitingahúsum í Reykjavík 21. mars og í þeirri sömu viku stendur hátíð frönskunnar þar sem meðal annars verða tónleikar í stúdentakjallara Háskóla Íslands 23. mars.

Og árið 2017 verður kosningaár hjá Frökkum búsettum á Íslandi: Forsetakosningar (fyrri umferð er 23. apríl og síðari umferð 7. maí) og síðan þingkosningar (fyrri umferð 4. júní - sem vel að merkja fer fram viku á undan fyrri umferð í heimalandinu - og síðari umferð verður 18. júní). Kosið verður í sendiráðinu í báðum kosningum. Í þingkosningunum verður líka hægt að kjósa rafrænt.

Síðasta uppfærsla þann 10/06/2021

Efst á síðu