Sendiherrann hefur orðið

Ýmsar ánægjulegar fréttir lífguðu upp á árið 2016, eins og til dæmis frægðarför Íslands „litla“ á Evrópukeppnina 2016, en oftar vörpuðu aðrar fréttir skugga á það - hryðjuverk í Evrópu, hrannvíg í Austurlöndum nær - og aðrir atburðir komu okkur í opna skjöldu, eins og kjör Donalds Trumps í Bandaríkjunum, úrsögn Breta úr ESB, og ef við lítum okkur nær, ófyrirséðar breytingar á ríkisstjórn Íslands og kosningar fyrr en áætlað var.
JPEG
Í þessu alþjóðlega samhengi, þar sem óvissan fer vaxandi, þá eru samskipti Frakka og Íslendinga í hinu besta horfi, ekki síst eftir heimsókn forseta Frakklands í október 2015. Þessi tengsl eru traust og stöðug og rótfest í sameiginlegum minningum, eins og vel kom á daginn þegar skipbrots Charcots skipherra var minnst í september 2016. Samskiptin þróast á mörgum sviðum: Viðskipti landanna aukast ört, í báðar áttir, skip franska flotans og hafrannsóknaskip koma reglulega til hafnar í Reykjavík, löndin skiptast á stúdentum og vísindamönnum, forráðamenn í Strassbourg og Reykjavík hafa skipst á heimsóknum, ferðamönnum milli landanna hefur fjölgað og líka Frökkum búsettum á Íslandi...
JPEG
Líkt og undanfarin ár verður Franska kvikmyndahátíðin fyrsti viðburðurinn sem sendiráðið stendur að, ásamt Alliance française. Hátíðin hefst 27. janúar í Háskólabíói í Reykjavík og síðan á Akureyri. Á hátíðinni gefst mönnum kostur á að kynnast góðu úrvali mynda á frönsku. Hátíðin 2017 verður sérstök því þar verður hleypt af stokkunum „Verðlaunum Sólveigar Anspach“, í virðingarskyni við kvikmyndaleikstjórann íslenska sem féll frá í ágúst 2015, fáeinum mánuðum eftir að hún tók þátt í Frönsku kvikmyndahátíðinni það ár og var þá að leggja lokahönd á síðustu mynd sína, „Vatnsáhrifin“ (L’effet aquatique). Þessi mynd var kynnt á Kvikmyndahátíðinni í Cannes 2016 og sýnd á RIFF hátíðinni í Reykjavík við góðar undirtektir. En við vildum ekki láta við það sitja að votta Sólveigu Anspach virðingu okkar með myndasýningum á Frönsku kvikmyndahátíðinni og á RIFF, heldur halda á loft nafni hennar, kvikmyndaleikstjórans sem var tákn fyrir tengsl landanna, með verðlaunum sem við hana yrðu kennd.

Í samstarfi við Ráðhúsið í Reykjavík, framleiðendur mynda Sólveigar og aðila sem dreifðu þeim, þá fannst Sendiráði Frakklands og Alliance française það vel til fundið að afhenda árlega, í tengslum við Frönsku kvikmyndahátíðina, verðlaunagrip sem Mireya Samper hannaði. Mireya stendur sjálf sínum fæti í hvorum menningarheimi. Verðlaunin eru veitt kvikmyndagerðarkonu, íslenskri eða frönskumælandi, fyrir stuttmynd á íslensku eða frönsku. Dómnefnd undir forystu Kristínar Jóhannesdóttur kvikmyndaleikstjóra, sem sjálf er íslensk og frönskumælandi, velur stuttmyndina sem verður sýnd um leið og verðlaunin verða afhent 2. febrúar 2017.
JPEG
Ég vona að ég sjái sem flest ykkar, sem þetta lesið, á Frönsku kvikmyndahátíðinni og við athöfnina þegar Sólveigar Anspach verðlaunin verða afhent og ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs.

Síðasta uppfærsla þann 04/01/2017

Efst á síðu