Sendiherrann hefur orðið

JPEG
Hryðjuverkið í Nice 14. júlí, sem spurðist hingað rétt eftir að samkomunni lauk á Kjarvalsstöðum, varpaði skuga á hátíðahöldin.

Eins og eftir ódæðin í nóvember 2015 bárust sendiráðinu margar samúðarkveðjur frá íslenskum stjórnvöldum og íslenskur almenningur sýndi hluttekningu sína með ýmsum hætti.

Þessi hörmulegi atburður færði okkur heim sanninn, enn einu sinni, að Ísland stendur við hlið okkar í gleði jafnt og sorg. Nokkrum dögum áður en þessi atburður átti sér stað, hafði hið dæmalausa ævintýri íslenska landsliðsins í fótbolta í Evrópukeppninni 2016 kveikt áhuga og vinarhug íslensks almennings í garð Frakklands. Íslendingar kunnu vel að meta hvernig landsliðinu og stuðningsmönnum þess var tekið ytra.

Margs konar viðburðir, sem tengjast hafinu, verða áberandi sumarið 2016. Franskir dagar voru haldnir hátíðlegir í Fáskrúðsfirði (22. - 24. júlí) og þar mátti enn komast að raun um hve hún er lífseig minningin um frönsku sjómennina sem voru fjölmennir á Austfjörðum þegar þorskveiðar Frakka stóðu sem hæst, frá því um 1830 til 1930. Í júlí 2014 var vígt hótel og safn á Fáskrúðsfirði, að viðstöddum forseta Íslands og forvera mínum í starfi. Þessi starfsemi er til húsa í byggingunni sem var franskur spítali. Í júlí 2015 var gólettan „La Belle Poule“ fulltrúi Frakklands á hátíðinni. Skipið er smíðað eftir uppdráttum af gólettunum sem sóttu til Íslandsmiða fyrir einni öld. Og nú í ár auðnaðist mér að hitta bæjarstjórann í Gravelines, vinabæ Fáskrúðsfjarðar. Hann var þangað kominn til að styrkja tengsl bæjanna, en þau hvíla á minningunni um þessa sjósókn fyrri ára.

Í september minnumst við svo Charcots skipherra sem fórst með skipi sínu „Pourquoi Pas?“ undan Álftanesi í Borgarfirði 16. september 1936. Ýmsir viðburðir verða á dagskrá frá 14. til 16. september af þessu tilefni, bæði á slysstað og í Reykjavík. Charcot var frumkvöðull í rannsóknum Frakka á heimsskautunum. Hafrannsóknaskipið „Pourquoi pas?“ kemur til Reykjavíkur í tengslum við afmælið og Íslandspóstur hefur tilkynnt að gefið verði út frímerki til minningar um Charcot og skip hans. Koma rannsóknaskipsins, sem ber sama heiti og skip Charcots, sýnir áherslu Frakka á rannsóknir á norðurslóðum, nú þegar fáir mánuðir eru frá því að „Vegvísir fyrir norðurslóðir“ var gefinn út. Vegvísirinn er niðurstaða langrar athugunar, sem Michel Rocard stýrði, og var það síðasta stórvirkið sem hann skildi eftir sig áður en hann féll frá. Vegvísirinn tekur saman meginatriðin í stefnu Frakka á norðurslóðum og fjallar ekki síst um áhersluna á að efla og þróa vísindarannsóknir, í samstarfi við aðra aðila á þessum slóðum.

Síðasta uppfærsla þann 17/08/2016

Efst á síðu