Sendiherrann hefur orðið [fr]

JPEG
Evrópukeppnin í fótbolta 2016 er það sem ber hæst í samskiptum Frakklands og Íslands um þessar mundir. Keppnin fer fram í Frakklandi frá 10. júní til 10. júlí.

Í tilefni af opnunarleik keppninnar þann 10. júní, milli Frakklands og Rúmeníu, þá bauð sendiráðið Frökkum búsettum á Íslandi að fylgjast með spennandi viðureign í glæsilegum húsakynnum Knattspyrnusambands Íslands og gæða sér á víni og kæfu. Um hundrað manns þágu boðið. Fransk-íslenska viðskiptaráðið, FRIS, býður svo Íslandsvinum í móttöku í fljótabát þann 21. júní, til að hita upp fyrir leik Íslands og Austurríkis 22. júní á Stade de France leikvanginum þar sem stórir skarar íslenskra stuðningsmanna landsliðsins verða saman komnir. Ýmsir ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands verða í þeim hópi og hátt hlutfall landsmanna: Ein 8% íslensku þjóðarinnar munu fara til Frakklands vegna Evrópukeppninnar og næstum 50% fylgjast með liðinu í sjónvarpi, í fyrsta skiptið sem það keppir í alþjóðlegri fótboltakeppni.

Samvinna landanna heldur áfram á öðrum sviðum líka. Forseti Strassborgarsvæðisins kom nýlega til að ræða um samskipti í jarðhitamálum og 9. og 10. júní kom Roland Ries, borgarstjóri Strassborgar, og bauð Reykjavíkurborg til samstarfs um nýtingu jarðhita og ennfremur um samgöngumál og æðri menntun. Strassborg er Evrópuborg, þar er að finna íslenskan konsúl og bráðlega kemur þangað íslensk fastanefnd sem annast samskiptin við Evrópustofnanirnar með aðsetur í borginni. Hún er þess vegna vel í sveit sett til að taka þátt í samstarfi um hagnýt verkefni af þessum toga. Heimsóknir þessara tveggja aðila, sem sendiráðið skipulagði, tókust með miklum ágætum og ástæða er til að ætla að tengsl Reykjavíkur og Strassborgar muni blómstra.

Bæði löndin vinna af kappi að því að hrinda COP21 samningnum í framkvæmd. Frakkar hafa nú fullgilt samninginn og Íslendingar ætla að gera það fyrir áramót. Sendiráðið gerir sitt til að dreifa upplýsingum út í samfélagið og brýna það til aðgerða. Þar má nefna framsögu þann 31. maí á ráðstefnu FESTU (Miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja) og hundrað íslenskra fyrirtækja sem höfðu undirritað skuldbindingu í loftslagsmálum fyrir COP21 ráðstefnuna. Ennfremur kom sendiráðið að sýningu myndarinnar „Demain“ eftir Mélanie Laurent í Bíó Paradís þann 7. júní að viðstöddu fjölmenni.

Eftir fáeinar vikum höldum við svo upp á þjóðhátíðina okkar og þar gefst þá enn og aftur kostur á að hittast.

Síðasta uppfærsla þann 23/06/2016

Efst á síðu