Sendiherrann hefur orðið [fr]

JPEG
Ein meginstoð í samvinnu Íslendinga og Frakka er nýting jarðhita.

Einungis í aprílmánuði komu hvorki fleiri né færri en þrjár sendinefndir frá Frakklandi til Reykjavíkur, til að styrkja betur þau tengsl, sem tekist hafa með stuðningi sendiráðsins.

Rektor Verkfræðiskólans við Háskólann í Strassborg átti framhaldsviðræður við rektor Háskólans í Reykjavík og starfsfólk hans um samstarfsverkefni beggja stofnana, sem varðar endurnýjanlega orku og er framlenging á samningi sem undirritaður var í París í fyrravor.

Um sama leyti kom stór sendinefnd frá frönskum fyrirtækjum, undir merkjum „Geodeep“ klasans, og tók þátt í ráðstefnunni Icelandic Geothermal Conference sem haldin var í Hörpu frá 26. - 29. apríl. Á undan hafði verið efnt til vinnufundar jarðhitaklasanna, þess íslenska og þess franska, sem höfðu gert með sér rammasamning í júlí 2015. Á fundinum var rætt um tækifæri og sameiginlegar tillögur að verkefnum.

Að síðustu kom Robert Herrmann, forseti Strassborgarsvæðisins, ásamt nefnd fulltrúa úr nágrannasveitarfélögum Strassborgar til að kynna sér hvaða augum Íslendingar líta hitaveitur. Ráðist hefur verið í ýmis verk tengd jarðhita í Elsass og íbúar á sumum stöðum þar eru á báðum áttum um nýjar framkvæmdir sem þar eru fyrirhugaðar. Þessi nefnd sannfærðist um að hitaveitur falla fullkomlega inn í borgarsamfélagið, og eru til mikilla hagsbóta fyrir jafnt efnahagslífið sem lífsgæðin.

Í þessum heimsóknum fulltrúa úr frönskum stjórnmálum, efnahagslífi og vísindum kynntu þeir íslenskum viðmælendum sínum flestar hliðar á þeim spurningum og álitamálum sem rædd eru í sambandi við jarðhita í Frakklandi og báru saman við sjónarmið Íslendinganna. Þessir fundir skiluðu áleiðis tveimur markmiðum okkar: Að þróa iðnaðarsamstarf íslenskra og franskra fyrirtækja, bæði í Frakklandi og á Íslandi, en ekki síður í öðrum löndum þar sem helstu tækifærin er að finna til að nýta jarðhita til að vinna gegn loftslagsbreytingum, í framhaldi af þeim skuldbindingum sem gerðar voru í París í desember 2015.

Síðasta uppfærsla þann 14/07/2018

Efst á síðu