Sendiherrann hefur orðið

JPEG - 12.1 ko

Frakkar fundu fyrir miklum samhug meðal Íslendinga í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París.

Forsetinn, ríkisstjórnin, borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórar stærstu bæja á Íslandi höfðu þegar í stað samband til að tjá okkur samstöðu sína og flytja okkur samúðarkveðjur. Innanríkisráðherra sat sérstakan ráðherrafund þann 20. nóvember í Brussel þar sem heimilaðar voru ýmsar aðgerðir til að bæta öryggi borgaranna. Íslenska lögreglan var í nánu sambandi við sendiráðið til að leggja mat á ógnina hérlendis og gat upplýst að franskir borgarar á Íslandi væru ekki í sérstakri hættu.
Það voru ekki bara íslensk yfirvöld sem sýndu okkur stuðning heldur allur íslenskur almenningur. Daginn eftir hryðjuverkin var efnt til samkomu við sendiráðið, í virðingarskyni við fórnarlömb árásanna. Nálega 300 manns skrifuðu nöfn sín í minningabók, og er þá ekki minnst á allan tölvupóstinn.

Það sem mesta athygli vakti var Harpa, táknmynd Reykjavíkur, sem skartaði frönsku fánalitunum. Nærtækt dæmi er líka húsið andspænis bústað sendiherrans sem bar þessa sömu liti. Fjöldamargar opinberar byggingar og einkabústaðir í Reykjavík og víðar um landið voru lýst í þessum litum í virðingarskyni við París og tóku þannig þátt í hreyfingu um alla veröld sem vottaði frönsku þjóðinni samstöðu með hennar litum. Á vefsetrinu okkar er að finna nokkur dæmi um byggingar í bláu, hvítu og rauðu.
Íslendingar sýna að lokum í verki hvert traust þeir bera til Frakklands og stuðning sinn við áherslur Frakka með því að taka virkan þátt í COP21 ráðstefnunni sem hófst í París 30. nóvember. Forseti Íslands, forsætisráðherra, tveir ráðherrar aðrir, sex þingmenn og borgarstjórinn í Reykjavík taka allir þátt í störfum ráðstefnunnar, að ónefndum tuttugu stúdentum við Háskóla Íslands sem þarna sameina áhuga sinn á Frakklandi og þörfina fyrir að leggja baráttunni við loftslagsbreytingar lið.

Vel mega allir íslenskir vinir okkar vita, og Frakkar búsettir á Íslandi, að allur sá samhugur, sem okkur var auðsýndur, hefur snortið okkur djúpt og viljum við tjá þeim þakklæti okkar hér.

Síðasta uppfærsla þann 10/06/2021

Efst á síðu