Sendiherrann er bjartsýnn á árangur í París [fr]

PNG
„Ég bind vonir við að þessi ráðstefna muni skila miklum árangri fyrir heiminn allan,“ segir Philippe O’Quin, sendiherra Frakklands á Íslandi, í samtali við Morgunblaðið um loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna - COP21- sem hefst í París í dag.

Hún hefur verið kölluð mikilvægasta alþjóðaráðstefna sögunnar, enda brýnt orðið að ná tökum á þeim vanda sem hlýnun lofthjúpsins hefur í för með sér á jörðinni.

Bjartsýni sendiherrans byggist á því að flest þátttökuríki hafa fyrirfram boðað margþættar skuldbindingar sem taka eiga við þegar Kyoto-bókunin rennur út árið 2020. Ýmsir hlutar hennar eru þó ófrágengnir. Er hugmyndin að halda hitahækkun undir 2°C, en að óbreyttu verður hitastigið um það bil 5° C hærra en fyrir iðnbyltingu. Meðal þess sem gera þarf er að veita snauðari ríkjum heims fjárhagslegan stuðning til að auðvelda þeim að draga úr mengun og laga sig að breytingum sem þegar eru að eiga sér stað í umhverfinu af völdum hlýnunar. Hefur verið talað um að veita sem svarar 100 milljörðum dollara á ári vegna þessa frá 2020.

Ísland fylgir þeirri stefnu sem lönd Evrópusambandsins hafa markað sem er 40% samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 samanborið við árið 1990.
Ráðstefnuna sækja um 40 þúsund manns frá öllum ríkjum heims, vísindamenn, embættismenn, áhugamenn um umhverfismál, ráðherrar og þjóðarleiðtogar. Frá Íslandi koma meðal annars Ólafur Ragnar Grímsson forseti, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra. Ráðstefnunni lýkur 11. desember. Gríðarleg undirbúningsvinna liggur að baki ráðstefnunni og þykja Frakkar hafa staðið sig mjög vel við að halda utan um alla þræði hennar.

Eftir hryðjuverkin í París fyrir rúmum hálfum mánuði voru uppi raddir um að skynsamlegast væri að fresta ráðstefnunni. Frá því var fallið og segir Philippe O’Quin að þátttakendum hafi fjölgað og megi líta á það sem stuðning við Frakka og þá almennu samstöðu sem þar í landi hefur skapast um að láta hryðjuverkamenn ekki eyðileggja hið frjálsa og lýðræðislega þjóðfélag. „Við ætlum ekki að láta hræða okkur frá því að lifa því lífi sem við kjósum,“ segir sendiherrann.

Philippe O’Quin hefur tekið virkan þátt í að kynna ráðstefnuna hér á landi. Hann hitti stúdenta í Háskóla Íslands fyrir helgi og mætti á fund í Höfða á dögunum þar sem kynnt voru áform fjölda íslenskra fyrirtækja um sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau skuldbinda sig til að setja sér markmið í loftslagsmálum og fylgja þeim eftir með aðgerðum. Í ávarpi á fundinum hvatti sendiherrann fyrirtækin til að taka þátt því slík yfirlýsing og frumkvæði fyrirtækja væri í takt við það sem verið er að gera víða um heim.

Aðspurður um það hvort hætta væri á að viðsjár í alþjóðamálum að undanförnu mundu draga athyglina frá verkefnum loftslagsráðstefnunnar kvaðst sendiherrann ekki telja að það myndi gerast. Hnattrænar umhverfisbreytingar magna mörg vandamál samtímans, svo sem hinn stóraukna fjölda flóttafólks. Forystumenn ríkja heims gerðu sér grein fyrir að ef ekki væri gripið til ráðstafana myndu æ fleiri flýja heimkynni sín og komast á vergang. Við því yrði að sporna.

Síðasta uppfærsla þann 30/11/2015

Efst á síðu