Sendiherra hefur orðið

JPEG
Þótt mikill árangur hafi náðst á loftslagsráðstefnunni í París er verkefninu, sem við þurfum öll að fást við, að sjálfsögðu engan veginn lokið.

Mörg skref eru í bígerð sem öll snerta samband Frakka og Íslendinga, enda verða Frakkar í forsæti COP21 til ársloka 2016, þegar Marokkó tekur við keflinu.

Forseti Frakklands, aðalritari Sameinuðu þjóðanna og Ségolène Royal (sem tekur við af Laurent Fabius í forsæti COP21) hafa boðið öllum forystumönnum ríkisstjórna til New York þann 22. apríl til að undirrita sáttmálann með formlegum hætti. Enda er það ekki fyrr en 55 ríki, sem eiga upptök að 55% af útblæstri gróðurhúsalofttegunda, hafa undirritað samkomulagið sem það gengur í gildi.

Þeim ráðstöfunum, sem ríkin skuldbundu sig til að grípa til, verður hrundið í framkvæmd árið 2020. Ísland tók á sig sömu skuldbindingu og Evrópusambandsríkin, að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030. Til að standa við þessa skuldbindingu þarf að leggja hart að sér. Ísland hefur verið til fyrirmyndar þegar litið er til hagnýtingar grænnar orku en á upptök að miklum útblæstri gróðurhúsalofts vegna iðnrekstrar og mengunar í samgöngum.

Ríki, sem undirrita samkomulagið, eiga að koma saman árið 2018 til að meta hverju þau hafa komið áleiðis og frá 2023, og á fimm ára fresti eftir það, eiga þau að skila sameiginlegum niðurstöðum. Þá hafa þau líka skuldbundið sig til að auka enn framlagið, jafnt og þétt. Matið á árangrinum verður byggt á aðferðum sem tryggja gagnsæi og að hægt verði að sannreyna árangurinn.

Og aðrir aðilar en ríki (til dæmis borgir og fyrirtæki) bíða ekki til 2020 heldur taka strax til hendi við „lausnadagskrá“ Parísarsamkomulagsins. Margir bæir og fyrirtæki á Íslandi hafa skuldbundið sig í samræmi við þessa dagskrá. En „lausnadagskráin“ færir líka íslenskum aðilum fjöldamörg tækifæri, til dæmis á sviði jarðvarma sem ætti að njóta góðs af „Afríkuátakinu í endurnýjanlegri orku“. Ákveðið var á ráðstefnunni í París að verja tveimur milljörðum evra til að standa undir þessu átaki milli 2016 og 2020.

Síðasta uppfærsla þann 20/04/2016

Efst á síðu