„One Planet“ leiðtogafundurinn í París [fr]

PNG
Leiðtogaráðstefnan „One Planet“ fór fram í París 12. desember 2017. Það voru Frakkland, Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðabankinn sem skipulögðu ráðstefnuna.

Katrín Jakobsdóttir fór við þetta tækifæri í fyrstu utanlandsferð sína sem nýr forsætisráðherra Íslands.

Meira en 4.000 gestir sóttu ráðstefnuna, þar af einir 50 þjóðar- og stjórnmálaleiðtogar. Helsti tilgangur ráðstefnunnar var að hleypa nýju lífi í baráttuna við loftslagsbreytingar og brýna til dáða alla hlutaðeigandi – banka, lífeyrissjóði, fyrirtæki, ríkisstjórnir, fylki, svæðasambönd sem og bakhjarla, vísindamenn og óopinberar stofnanir – til að halda áfram að leita lausna í sameiningu og með skýrum hætti. Ef ekkert verður að gert mun reynast ógerlegt að halda hlýnun andrúmslofts undir tveimur stigum og öllum er ljóst að afleiðingar af slíkri hlýnun verða grafalvarlegar fyrir heiminn allan. Rúmlega 15.000 vísindamenn orðuðu það nýlega svo í opnu bréfi til heimsbyggðarinnar: „Það er knýjandi siðferðileg nauðsyn að grípa til aðgerða, fyrir kynslóðirnar sem nú eru uppi og hinar sem á eftir koma.“

JPEG

Við fundarlok fagnaði Macron Frakklandsforseti skýrum skuldbindingum sem þátttakendur gengust undir á ýmsum sviðum, sérstaklega hvað varðar að beina fjármunum í sjálfbæra þróun (þannig boðaði Alþjóðabankinn að hann myndi ekki fjármagna olíu- eða gasiðnað eftir 2019), að draga úr útblæstri CO2 og stefna í átt að kolefnislausum hagkerfum og að fjárfesta í tæknigreinum sem ekki eru háðar jarðefnaeldsneyti...

Frakkland hafði forystu um að kalla saman þennan leiðtogafund og með því að hleypa af stokkum „bandalagi annarra bandalaga“ í þágu loftslagsmála er tekinn upp þráðurinn frá Parísarsáttmálanum og sú ábyrgð sem af honum leiddi. Eins og Macron sagði þá eigum við ekki annars kost, við eigum enga áætlun til vara né aðra jörð til vara til að bjarga mannkyni frá vistfræðilegum hamförum sem myndu riðla þjóðfélögum um allan heim og leiða til átaka, spennu og neyðarástands af ýmsu tagi.

Ísland vísar veginn því það hefur lýst yfir þeirri ætlan sinni að verða kolefnishlutlaust fyrir 2040. Þetta ætlunarverk er ekki auðvelt viðfangs en svo vitnað sé í keisarann og heimspekinginn Markús Árelíus „þá er tálmi leið til athafna“. Leiðtogafundurinn í París sýndi að mönnum er ljóst að það er veröldin öll sem þarf að kljást í sameiningu við hlýnun loftslags. Hvert og eitt okkar verður að leggja sitt af mörkum og beita öllu hugviti til að draga úr útblæstri CO2.

Síðasta uppfærsla þann 21/12/2017

Efst á síðu