Nýir styrkþegar franska sendiráðsins

Þrír nýir styrkþegar franska sendiráðsins segja frá sjálfum sé og náminu sem þeir stunda í Frakklandi.

PNG

Anastasía Jónsdóttir, mannréttindanám við Sciences Po í París

Ég heiti Anastasía Jónsdóttir og er 24 ára gömul. Í júní kláraði ég grunnnám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og í ágúst mun ég hefja tveggja ára mastersnám í Human Rights and Humanitarian Action í Sciences Po í París. Samhliða náminu í Háskóla Íslands hef ég tekið virkan þátt í félagsstörfum og stefni á að halda því áfram í París. Sem dæmi hef ég mikinn áhuga á að taka þátt í verkefninu Refugee Help innan Sciences Po, sem er stúdentadrifið framtak og snýr að því að auðvelda aðlögun flóttafólks í París og aðstoða hælisleitendur við umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd.
Sciences Po er einn vinsælasti skóli í Evrópu á sviði alþjóðasamskipta, en námið mitt fellur undir þá deild. Þetta framhaldsnám er því kjörið tækifæri fyrir mig að hljóta fyrsta flokks menntun og efla kunnáttu mína á sviði jafnréttis, jafnræðis og mannréttinda. Auk þess, ætla ég mér að læra frönsku sem mun svo sannarlega aðstoða mig við atvinnuleit á alþjóðavettvangi. Að náminu loknu stefni ég á að sækja um starfsnám hjá alþjóðastofnunum eða samtökum á borð við Sameinuðu þjóðirnar, Human Rights Watch eða Rauða krossinn og auka með því starfsreynslu mína. Að meistaranámi og starfsnámi loknu, hef ég áhuga á að fara í doktorsnám.
Ég er ótrúlega þakklát franska sendiráðinu á Íslandi fyrir að veita mér þennan námsstyrk sem gerir mér kleift að stunda nám við Sciences Po. Þó að ástandið í heiminum í dag hafi að sjálfsögðu áhrif á kennsluhætti skólans á haustönninni er ég samt sem áður hrikalega spennt að flytja út, kynnast samnemendum mínum og hefja draumanámið í París.

PNG

Gylfi Þorsteinn Gunnlaugsson, stærðfræðinám við ENS og PSL í París

(Standandi, lengst til vinstri á mynd.)
Síðastliðið haust útskrifaðist ég með B.Sc. í stærðfræði frá Háskóla Íslands. Í vetur hef ég kennt dæmatíma og unnið að rannsóknum í erfðafræði, fyrst við háskólann og nú hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Í vor hlaut ég styrk til framhaldsnáms í París til tveggja ára. Styrkurinn er fjármagnaður af Fondation Sciences Mathématiques de Paris ásamt sendiráði Frakklands í Reykjavík. Í grunnáminu fékkst ég við hreina stærðfræði, þ.e. stærðfræði án sérstakrar hagnýtingar í huga, sem er iðkuð stærðfræðinnar vegna. Námið er tveggja ára samstarfsverkefni École normale supérieure (ENS) og Paris Sciences & Lettres (PSL), tveggja Parísarháskóla, og lýkur með meistaragráðu í hreinni stærðfræði. Frakkland, og sér í lagi París, á sér langa sögu sem miðstöð stærðfræðiðkunnar og ég hlakka því mikið til að læra þar.

JPEG

Kolbeinn Stefánsson, meistaranám í stjórnun við INSEAD í Fontainebleau

Næstkomandi haust mun ég hefja meistaranám í stjórnun (MBA) við INSEAD háskólann í Frakklandi. INSEAD hefur verið leiðandi í viðskiptafræði í áratugi, bæði vegna framúrskarandi námsgæða, auk staðsetningar skólans rétt fyrir utan París, viðskiptamiðju Evrópu. Ég er mjög stoltur af því að fá tækifæri til að sitja við þennan virta háskóla. Ég hlakka til að auka enn frekar þekkingu mína á viðskiptafræði og þá hef ég sérlega áhuga á að rannsaka stefnumótun, markaðssetningu og nýsköpun innan fyrirtækja á neytendavörumarkaði.
Áhugi minn á viðskiptafræði kviknaði á námsárum mínum við Menntaskólann í Reykjavík en ég lauk þaðan stúdentsprófi árið 2014. Ég brautskráðist frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands vorið 2017. Ég sat þriðja og síðasta námsárið mitt í viðskiptafræði sem skiptinemi við Columbia University í New York og brautskráðist þaðan með Advanced Business Certificate gráðu vorið 2017, samhliða útskrift frá HÍ. Námsferill minn við Viðskiptafræðideild HÍ og Columbia University jók enn frekar áhuga minn á fjármálum og markaðsfræði en ég lagði áherslu á þessi tvö fræðasvið auk þess sem ég sat námskeið í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi.
Að námi loknu hóf ég störf við markaðsdeild fyrirtækisins Icelandic Provisions í New York og hef ég starfað þar síðastliðin þrjú ár. Starfsemi fyrirtækisins hefur vaxið ört hvert ár og ég hef í starfi mínu sem aðstoðarmarkaðsstjóri (Assistant Marketing Manager) aukið enn frekar þekkingu mína á markaðs- og viðskiptafræði, sérlega í stefnumótun og áætlanagerð.
Ég vil þakka Sendiráði Frakklands á Íslandi fyrir að veita mér námsstyrk, en styrkurinn er ómetanleg hvatning til dáða og er mér mikill heiður.

Síðasta uppfærsla þann 15/09/2020

Efst á síðu