Pierre Coulibeuf í Listasafni Reykjavíkur og á RIFF kvikmyndahátíðinni [fr]

JPEG
Sérsýning í Listasafni Reykjavíkur frá 28. september til 11 nóvember 2017.

« Pierre Coulibeuf : Doubling »

Sýningin stendur saman af þremur vídeó innsetningum: The Panic Monkey (2017) ; Dédale (2009) ; Delectatio morosa (1988/2006).

Konseptið

Kvikmyndina ber hér að skoða sem innvols í altæku listverkefni. Sem tæki til umbreytingar og þar með til að skapa nýjan veruleika á alls kyns listrænum sviðum. Þegar ég skapa eitthvert verk fæst ég alltaf við það sama, það er verðandina: Ein listgrein verður önnur, eitt verklag annað, ein sýn önnur, eitt form annað, einn hlutur annar. Ég kem til skjalanna á mótunum, á bilinu milli ímyndunarinnar um hitt, listamanninn sem blæs mér verkefninu í brjóst, það er að koma á samböndum, tengingum, kalla fram samóm hlutanna, að leggja til ný viðföng, að draga upp nýtt sagnarými. Þegar ég set verkin saman byggi ég upp frásagnarþætti sem ljá öllum liðum verksins tiltekna skipan og lífsanda. Frásögnin ber í sér einhvern krók eða fjarlægð þar sem veruleikinn er fyrst og fremst samspil tiltekinna afla.

Kvikmyndasköpunin er tilraun. Ég skynja kvikmyndina umfram allt sem leit eða rannsókn. Ég vinn með kvikmyndina í tilteknu samhengi við nútímasköpun. Opna kvikmyndina fyrir sviðum sem má kanna, framleiða nýtt ritmál hljóðs og myndar, finna upp nýja veruleika. Frá þessu sjónarhorni hefur sýningarrýmið leyft mér að teygja sjálfa verðandina í nýjar áttir. Í sýningarrýminu verður 35 mm filman að innsetningarfilmu. Þannig verður til nýtt form ósamfelldrar frásagnar með 35 mm filmuna sem deiglu. Hún laðar til sín rýmið í listhúsinu eða safninu, arkitektúrinn sjálfan. Verkið er leyst í sundur og sett saman aftur á annan hátt og teflir saman alls kyns mynd- og hljóðpörtum eða eingöngu myndpörtum – hreyfimyndir með hljóði eða þöglar (myndraðir og samfellur í síspilun) og fastar myndir (ljósmyndir í römmum).

Doctor Fabre Will Cure You
The Panic Monkey
The Panic Monkey

« Doctor Fabre Will Cure You »

Mynd á RIFF (Sérviðburðir)
(2013, 60 mín 10s, 35mm lit)
Með Jan Fabre, Ivana Jozic
29. september 2017
Sýningarstaður: Listasafn Reykjavíkur.

Efni

Tilraunaspuni Pierres Coulibeufs, framúrstefnuleikstjóra og sjónlistamanns. Myndin byggist á sýningum Jan Fabres og Næturfréttum hans.
Myndin –nútímaleg saga um álfkonur – sýnir Jan Fabre í eigin hugarheimi og dregur upp persónu sem skiptir án afláts um persónuleika. Jan Fabre bregður sér í ýmis hlutverk í alls kyns gervum. Bak við eina grímu leynist alltaf önnur... Kvengervingur, nokkurs konar „flökkufordæða“, sýnir á sér mörg andlit og ásækir karlgervinginn og er undirrótin að eilíflegum umbreytingum hans.

Pierre Coulibeuf — Æviatriði

Pierre Coulibeuf er framúrstefnuleikstjóri og sjónlistamaður, búsettur í París. Hann þróaði listverkefni sem byggist á mörgum listgreinum: Tilraunasögur sem plægja listakurinn á kunnáttusamlegan hátt og þar sem persónuskipti orka á þá heima og listamenn sem verk hans sækja innblástur í. Kvikmyndir hans hafa verið sýndar á stærstu kvikmyndahátíðum (eins og Locarno eða Rotterdam) og bútaðar og settar saman á nýtt sem vídeó-ljósmyndainnsetningar í söfnum um víða veröld.

Sérsýningar (úrval): Deichtorhallen-Haus der Photographie, Hamborg (2006) ; Museu Colecção Berardo, Lissabon (2010) ; Nútímalistasafnið í Saint-Étienne (2009) ; Listasafn Rogers-Quilliots, Clermont-Ferrand (2013) ; Fondation Iberê Camargo, Brasilíu (2009) ; Musée d’Art Contemporain, Perm, Rússlandi (2011) ; MOCA-samtímalistasafnið í Chengdu í Kína (2012) ; Yuan Space, Peking (2013) ; New Media Art Centre í Sichuan Fine Arts Institute, Kína (2014) ; Times Museum (2015), Guangzhou, Kína.
Samsýningar (úrval) : 5. tvíæringurinn í Mercosul, Brasilíu (2005) ; 1. tvíæringurinn í samtímalist í Úral, Yekaterinburg (2010) ; Haus der Kunst, München (2012). Árið 2013 var Coulibeuf tilnefndur til kínversku listverðlaunanna í flokkinum Áhrifamestu erlendir listamenn í Kína (ásamt Andy Warhol, Marcel Duchamp, Araki, Shirin Neshat). Verk Coulibeufs eru hluti af stórum samsöfnum í Frakklandi og öðrum löndum.

Síðasta uppfærsla þann 10/06/2021

Efst á síðu