Sendiherrann hefur orðið

Þriggja ára starfstíma mínum á Íslandi er nú lokið. Hann hófst í október 2014 og lauk 30. september.

Vel heppnuð heimsókn franska forsetans til landsins í október 2015 setti svip á þennan tíma og varð enn til að styrkja samband landanna, sem hefur lengi verið afbragðsgott, því það byggist á sameiginlegum minningum og hagsmunum.

Auk minninganna um frönsku sjómennina á Íslandi, sem enn eru vakandi og sýnilegar í gömlu frönsku spítulunum, þá er menningin í öndvegi í samskiptum okkar við Íslendinga sem skilgreina sig, líkt og Frakkar, út frá tungu sinni og bókmenntum. Því gera sendiráðið og Alliance Française kynningu á frönsku og franskri listsköpun hátt undir höfði og gæta þess vel að halda í horfinu samstarfsverkefnum (styrkjum og sameiginlegri fjármögnun á vísindarannsóknum) jafnframt því sem þau fitja upp á nýjum verkefnum, eins og Sólveigar Anspach verðlaununum sem veitt voru í fyrsta sinn á síðustu frönsku kvikmyndahátíðinni.

Skoðanir beggja þjóða á alls kyns málefnum falla líka saman á síðustu árum og færa þær nær hvorri annarri, til dæmis varðandi hlutverk endurnýjanlegra orkuauðlinda í baráttunni við loftslagsbreytingar. Formlegu samstarfi í þessum efnum var komið á á COP 21 loftslagsráðstefnunni í París í desember 2015 og hefur fundið sér farveg með samstarfi á jarðhitasvæðum milli fyrirtækja á því sviði í báðum ríkjum, samkvæmt samningsramma sem jarðhitaklasar landanna tveggja gerðu með sér.

Norðurslóðir eru annað svið þar sem áherslurnar fara saman. Frakkland gerði á síðasta ári grein fyrir fyrirætlunum sínum í Vegvísi um norðurslóðir. Hann var síðasta stórvirki Michels Rocards, sem hafði komið að stofnun og viðgangi Arctic Circle hringborðsins.

Frökkum á Íslandi fjölgar jafnt og þétt. Í samfélagi okkar er nú að finna fleiri en 500 manns. Það einkennir þennan hóp að hann fellur algjörlega inn í íslenskt þjóðfélag en heldur um leið fast í tengslin við Frakkland, eins og kom svo vel í ljós í dæmafárri þátttöku í síðustu kosningum.

Vörur frá Frakklandi hafa líka rutt sér til rúms á íslenskum markaði. Eftir hrun í útflutningi til Íslands eftir kreppuna hefur sala til landsins aukist um 50% á síðustu þremur árum og er nú orðin jafnmikil og hún var, og það þótt ekki sé talin með salan á Airbus flugvélunum til Wow Air! Í Frakklandi ríkir geysilegur áhugi á Íslandi og frönskum ferðamönnum til landsins hefur fjölgað ört. Þá hefur viðkomum skipa í franska sjóhernum fjölgað verulega á Íslandi,og sýnir það að landfræðilegt og hernaðarlegt mikilvægi svæðisins hefur vaxið og jafnframt að Frakkar halda fast við siglingahefðir sínar.

Öll þessi samskipti hafa þróast með jákvæðum hætti en efst eru mér í huga samskiptin við Íslendinga, sem eru beinskeyttir og hjartanlegir, og áhugi þeirra á Frakklandi og samúð þegar hryðjuverkin voru framin þar. Mér er líka kær minningin um Íslendingana frönskumælandi sem eru „ferjumenn“ milli menningarheimanna og þá vil ég að sjálfsögðu votta Sigurði Pálssyni virðingu mína.

Síðasta uppfærsla þann 10/06/2021

Efst á síðu