Frakkar settu nýsköpun og lífhermun á oddinn á Arctic Circle ráðstefnunni [fr]

Sjötta Arctic Circle ráðstefnan var haldin í Reykjavík frá 19. – 21. október 2018.

Yfir 2000 þátttakendur frá 60 löndum sátu ráðstefnuna að þessu sinni. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, kom þessari árlegu ráðstefnu á fót og er hún orðin sá viðburður um norðurskautsmál sem enginn má missa af. Á ráðstefnunni er fjallað um umhverfismál, vísindarannsóknir, hagfræði, félagsmál og strategísk mál norðurslóða.

Þetta ár var Ségolène Royal, sendiherra heimskautanna, fulltrúi Frakklands á ráðstefnunni. Hún var einn framsögumanna á allsherjarfundinum 20. október. Hún minnti á að Frakkland væri „heimskautsþjóð“, ætti áheyrnarfulltrúa í Norðurskautsráðinu, ætti að baki langa og árangursríka sögu í heimskautarannsóknum sem Stofnun Pauls-Émiles Victors sinnti nú og í Frakklandi stunduðu 400 vísindamenn rannsóknir sem vörðuðu heimskautin. Hún lagði sérstaka áherslu á nauðsyn banns við notkun og flutningum á skipaolíu sem er meiriháttar ógn við umhverfi norðurslóða og lífríkið þar.

Ségolène Royal gaf sendiráðinu góðfúslega kost á meðfylgjandi viðtali.

Ségolène stýrði einnig pallborðsumræðum franskra viðskipta- og vísindamanna á hliðarfundi sem franska sendiráðið skipulagði 20. október og snerust um nýsköpun og lífhermun. Í þessum pallborðsumræðum tóku þátt þau Jean-Christophe Allo, þróunarstjóri Sabella fyrirtækisins, Nicolas Dubreuil, siglingastjóri Ponant skipafélagsins, Marion Moreau, framkvæmdastjóri Sigfox sjóðsins, Anne Pajot, framkvæmdastjóri samskiptasviðs sprotafyrirtækisins Bioxegy, Géraldine Deliencourt, stofnandi og vísindalegur framkvæmdastjóri TFChem/Sirona, og að lokum Étienne Lefai, vísindamaður við INRA, rannsóknastofnun Frakklands í landbúnaði.

Arctic Circle lauk með forsýningu á heimildamynd um lífhermun, „Bjarnarafl“, sem bráðlega verður sýnd á ARTE. Einn vísindamannanna, sem stóðu að myndinni, Étienne Lefai, var viðstaddur sýninguna. Eftir sýningu svaraði hann spurningum áhorfenda, ásamt Anne Pajot.

Síðasta uppfærsla þann 20/12/2018

Efst á síðu