Franskir dagar á Fáskrúðsfirði, 26.-28. júlí 2019 [fr]

Eins og fyrir ári fór sendiherrann til Austfjarða í tilefni af hinum árlegu Frönsku dögum sem haldnir eru á Fáskrúðsfirði, vinabæ Gravelines en það er hafnarbær í Norður-Frakklandi og þaðan héldu hópar „Íslandssjóara“ áleiðis á þorskveiðar við Íslandsmið.

Á dagskrá hátíðarinnar 2019 voru meðal annars hjólreiðakeppni, keppni í pétanque, tónleikar, varðeldur og flugeldasýning. Þrátt fyrir rigningu tóku hundruð manna á öllum aldri þátt í hátíðahöldunum og þar ríkti hátíðastemmning.

Á opinberri dagskrá voru fundir sendiherrans og kjörinna bæjarfulltrúa Gravelines með forsvarsmönnum Fjarðabyggðar, helgiathöfn með þátttöku ólíkra trúfélaga í frönsku kapellunni sem hefur verið gerð upp, blómsveigar lagðir að minnisvarða í grafreitnum þar sem 49 franskir sjómenn hvíla og ýmsar menningarheimsóknir meðan á hátíðinni stóð. Henni lauk með almennum dansleik.

Bæjarfulltrúarnir frá Gravelines skoðuðu franska spítalann og þótti mikið til koma hve vel tókst til að gera hann upp, þær heimsóttu safnið sem er helgað frönsku sjómönnunum sem hingað komu á hverju ári til fiskveiða og bjuggu við harðan kost og lífsháska.

Tveir ungir Gravelinesbúar unnu í safninu í júlímánuði, í fyrstu ungmennaskiptum Gravelines og Fjarðabyggðar. Og í ágúst verða tvö ungmenni frá Fjarðabyggð um þriggja vikna skeið í Gravelines. Þannig er minningunni um liðna tíma haldið á loft meðal nýrra kynslóða og vináttuböndin milli bæjanna og íbúanna þannig styrkt.

Í lok september halda svo kjörnir bæjarfulltrúar frá Fjarðabyggð til Gravelines að taka þátt í Íslandshátíðinni þar.

Síðasta uppfærsla þann 01/10/2019

Efst á síðu