Í minningu Sigurðar Pálssonar skálds, 1948-2017 [fr]

JPEG
Fréttin um andlát Sigurðar Pálssonar var ekki óvænt en franska sendiráðið syrgir góðan dreng og saknar vinar í stað.

Tengsl Sigurðar við Frakkland voru löng og náin. Hann hélt ungur til náms í Frakklandi og átti þar tíðar dvalir með konu sinni og sálufélaga, Kristínu Jóhannesdóttur leikstjóra. Hann kynntist straumum og stefnum af ýmsu tagi í menningu og þjóðlífi landsins og eignaðist vini meðal merkisbera þessara hræringa. Hann lýsti kynnunum af Frakklandi á lifandi og skemmtilegan hátt í minningabókum sínum.

Heimur bókmennta og lista var vettvangur Sigurðar á Íslandi. Hann samdi ljóð, skáldverk, leikrit og minningabækur af miklu listfengi og hlaut verðskuldað lof fyrir. Þá telst okkur svo til að hann hafi þýtt úr frönsku tuttugu verk sem þegar hafa birst á íslensku, síðast „Uppljómanir & Árstíð í helvíti“ eftir Arthur Rimbaud. Hann veitti einnig Alliance Française forystu um nokkurt skeið. Fyrir ötult starf sitt í þágu Frakklands var Sigurður tvívegis heiðraður: Með „Orðu lista og bókmennta“ (Chevalier de l’Ordre des Arts et des Lettres) 1990, og með „Riddarakrossi frönsku heiðursorðunnar“ (Chevalier de l’Ordre National du Mérite) árið 2007.

Mest er þó um vert að Sigurður var gull af manni, ósérhlífinn húmanisti, næmur og skemmtinn í samræðum, með lifandi áhuga á málefnum líðandi stundar, eins og ávallt kom skýrt fram þegar fundum hans og starfsfólks sendiráðsins bar saman.

Franska sendiráðið þakkar af hjarta samfylgd Sigurðar og sendir konu hans, Kristínu Jóhannesdóttur, og fjölskyldu sínar dýpstu samúðarkveðjur.

Síðasta uppfærsla þann 20/09/2017

Efst á síðu