Minnst hundrað ára afmælis vopnahlésins 1918 [fr]

Að morgni 11. nóvember komu saman í Fossvogskirkjugarði sendiherrar þeirra ríkja sem áttust við í fyrri heimsstyrjöld, ásamt fulltrúum Landhelgisgæslunnar og utanríkisráðuneytis Íslands, og minntust sameiginlega breskra, þýskra og franskra sjómanna sem fórust í hafinu kringum Ísland.

Fulltrúar úr hópi Frakka búsettra á Íslandi tóku þátt í athöfninni og í lok hennar vottaði franski sendiherrann gröfum háseta úr skipi Charcots, „Pourquoi-Pas?", virðingu sína og las ávarp Frakklandsforseta í tilefni af 100 ára afmæli vopnahlésins.

Sendiráð Frakka og Þjóðverja tóku höndum saman og efndu til málþings 23. nóvember þar sem fjallað var um umrótið sem fyrri heimsstyrjöld leiddi af sér, og settu þannig fullveldistöku Íslands 1. desember 1918 í samhengi.

Sendiherrarnir buðu gesti ráðstefnunnar velkomna og þökkuðu sagnfræðistofnun Háskóla Íslands fyrir skipulagningu málþingsins og gátu þess jafnframt að Institut für Auslandsbeziehungen í Þýskalandi og La Mission du Centenaire í Frakklandi hefðu styrkt viðburðinn.

Það var síðan Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem setti ráðstefnuna. Í erindi sínu fjallaði Guðni um hlutverk sagnfræðinga og ríkisleiðtoga og minntist sérstaklega á hina áhrifamiklu alþjóðlegu minningarathöfn við Sigurbogann og ræðu Macrons Frakklandsforseta þar sem hann tefldi þjóðhyggju gegn þjóðernishyggju. Ennfremur talaði forsetinn um fyrstu friðarsamkomuna í París.

Málþingið stóð í fjóra klukkutíma og sóttu það fleiri en 80 gestir, þeirra á meðal Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Að því loknu var móttaka sem sendiráð Frakklands og Þýskalands stóðu fyrir. Síðar sama kvöld bauð forseti Íslands frummælendum og skipuleggjendum ráðstefnunnar til kvöldverðar á Bessastöðum.

Sendiráð Frakka og Þjóðverja stóðu líka sameiginlega fyrir tveimur sýningum á myndinni „Gleðileg jól“ í Tjarnarbíói, þann 22. og 24. nóvember. Myndin var gerð árið 2005 í samvinnu Frakka, Þjóðverja og Breta. Sýningarnar voru opnar almenningi og sóttu þær fjöldi foreldra sem vildu sýna börnum sínum þessa sorglegu atburði í Evrópusögunni en í aðgengilegu formi.

Síðasta uppfærsla þann 20/12/2018

Efst á síðu