Minningarathöfn 11. nóvember í Hólavallagarði í Reykjavík [fr]

Sendiherra Frakklands á Íslandi flutti meðfylgjandi ræðu við minningarathöfn í Hólavallagarði 11. nóvember.

11. nóvember, vopnahlésdagurinn í fyrri heimsstyrjöld, er frídagur í Frakklandi. Þá vottar öll þjóðin minningu þeirra, sem féllu í átökunum, virðingu sína. 15 milljónir féllu í stríðinu, 20 milljónir særðust, allt jafnvægi á meginlandinu raskaðist og tuttugu árum síðar geisaði þar síðari heimsstyrjöld. 11. nóvember er dagur kyrrðar og íhugunar.

Og þá einkum íhugunar um ógnir stríðsins. Fyrri heimsstyrjöld, sem stóð fyrir hundrað árum, skildi 1,5 milljónir Frakka eftir í valnum og meira en þrjár milljónir særðar. Í hverri kirkju, á hverju þorpstorgi í öllu Frakklandi eru skildir þar sem skráð eru nöfn þeirra sem féllu í því sem enn er kallað „Stóra stríðið“. Það er örðugt nú á dögum að gera sér í hugarlund hvílíkur hildarleikur þetta var. Á degi hverjum féllu til dæmis 3.000 hermenn í bardögunum við Verdun.

Og það er örðugt að gera sér í hugarlund þjáningarnar sem fólk leið meðan það stóð þetta langvinna stríð, sem skildi eftir í kjölfarinu endalausar raðir af ekkjum, munaðarleysingjum og örkumla mönnum, og Frakkland örþrota, kvalið og veikburða.

Okkur ber líka að íhuga þetta bræðravíg, sem nú 100 árum síðar mætti kalla evrópska borgarastyrjöld. En sagan lýtur ekki nauðhyggju og Frakklandi, sem á 70 ára tímabili sætti þremur innrásum Þjóðverja, auðnaðist að semja frið við þennan granna sinn, finna leið til sátta og leggja til að Evrópa yrði byggð upp í sameiningu. Þegar Frakkar og Þjóðverjar beittu sér í því að byggja upp Evrópu tókst þeim að láta að baki aldargamla óvild og axla ábyrgð sína andspænis hörmungasögu álfunnar.

Sagan er ekki ásköpuð en hún sýnir hvert brjálsemin getur leitt mennina. Það er brjálsemi mannanna sem teymdi Evrópuþjóðirnar eins og sofandi fram af hengifluginu svo vitnað sé í ástralska sagnfræðinginn Christopher Clark um tildrög fyrri heimsstyrjaldar.

Á Íslandi hefur nóvembermánuður um allnokkurt skeið verið tíminn þegar minning franskra sjómanna er heiðruð, þeirra sem horfið hafa undan þessari eyju elds og ísa, í ólgandi djúp Norður-Atlantshafs.

Árlega, áratugum saman, létu hundruð báta og þúsundir sjómanna úr höfn í Frakklandi til að veiða þorsk við Ísland. Það var hættuför og ekki sneru allir heim úr henni, eins og Pierre Loti lýsti svo vel í frægri skáldsögu sinni, „Á Íslandsmiðum“.

Áður en skipin, sem héldu hópinn, léttu akkerum í Paimpol var haldin hjartnæm blessunarathöfn, sem kölluð var aflausn, þar sem skip og áhafnir voru falin á hendur Notre-Dame-de-bonne-nouvelle (Vor-frú-hinna-góðu-frétta), verndardýrlingi Íslandsfaranna. En eins og Anatole le Braz getur í bók sinni sem nefnist „Fortíðarlönd“: „Góð kallaðist sú vertíð þar sem ekki þurfti að syrgja nema svo sem þrjá tugi mannslífa, þegar allar áhafnir sneru aftur en með meiri eða minni afföllum, þegar góðgerðafélagið þurfti ekki að hlutast til um nema svo sem tvöhundruð munaðarleysingja...“ Þannig er talið að fleiri en 4.000 franskir sjómenn hafi farist á „Íslandsveiðunum“ milli 1850 og 1935.

Ég vil ljúka máli mínu með því að færa Íslendingum þakkir fyrir samhug og bræðraþel sem þeir sýndu fjölmörgum frönskum sjómönnum, sem íbúar í strandhéruðunum björguðu, hlúðu að og framfærðu. Víða er að finna stakar grafir eða grafreiti í fjörðum fyrir vestan eða austan sem minna okkur á hreystiverk frönsku Íslandssjómannanna. Það er hjartnæmur kafli í sögunni um samskipti landanna okkar og okkur ber skylda til að halda minningu þessara manna á loft.

Síðasta uppfærsla þann 10/06/2021

Efst á síðu