Minningarathafnir um Pourquoi-Pas? og Charcot [fr]

16. september árið 1936 strandaði Pourquoi-Pas? við Álftanes í Straumfirði. Með því fórust Charcot skipherra og 39 skipverjar.

Þetta sjóslys orkaði sterkt á Íslendinga því Jean-Baptiste Charcot var þekktur og vel látinn hér á landi. Sendiráðið vildi þess vegna minnast 80 ára ártíðarinnar með veglegum hætti og stóð fyrir og tók þátt í ýmsum viðburðum af þessu tilefni: Athöfn í minningu hinna látnu við slysstað, athöfn í Landakotskirkju, en þar fór einmitt fram minningarathöfn um skipverja Pourquoi-Pas? áður en opinber útför þeirra var gerð í París, athöfn í Fossvogskirkjugarði þar sem eru grafir nokkurra skipverja úr Pourquoi-Pas?, kvikmyndasýning í húsnæði Alliance française, móttaka um borð í Pourquoi pas? og í bústað sendiherrans, málþing í Háskóla Íslands um vísindalega arfleifð Charcots.

Þessar minningarathafnir, sem íslenskir fjölmiðlar gerðu góð skil, tókust með miklum ágætum, og þar kom margt til:
- Frá Frakklandi kom stór sendinefnd, með dótturdóttur Charcots, afkomendum hennar og mörgum félögum í Vinafélagi Charcots
- Rannsóknaskipið Pourquoi pas? kom til hafnar í Reykjavík en það heldur á loft heiti hins sögulega skips Charcots í franska skipaflotanum
- Útgáfa Íslandspósts á frímerki til minningar um Pourquoi-Pas?, um borð í hinu nýja Pourquoi pas?
- Forsýning í Alliance française á heimildamynd um Jean-Baptiste Charcot, sem sjónvarpsstöðin Arte lét gera og var sýnd þar í október og er væntanleg í íslensku sjónvarpi
- Ýmsir málsmetandi menn og konur frá báðum þjóðum tóku þátt í athöfnunum: Forseti Íslands opnaði málþingið, landkönnuðurinn JL Étienne rakti áhrif Charcots á nokkrar kynslóðir landkönnuða, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, rifjaði upp hvernig íbúar Reykjavíkur brugðust við slysinu, menntamálaráðherra Íslands var viðstaddur þegar frímerkið um Pourquoi-Pas? var gefið út, Lionel Tardy þingmaður og forseti Vináttufélags Frakklands og Íslands í franska þinginu var viðstaddur viðburðina...

Hve vel tókst til er einnig að þakka áhuga margra Íslendinga og Frakka á Charcot, og þar ber sérstaklega að nefna þá Friðrik Rafnsson, sem sá um að samræma skipulag á viðburðunum á vegum Vinafélags Charcots, Jörund Svavarsson, sem skipulagði málþingið í háskólanum, og einnig Stéphane Dugast, blaðamann og ævisöguritara Paul-Émiles Victors, „andlegs sonar Charcots“, en Stéphane flutti fréttir af þessum viðburðum.

Síðasta uppfærsla þann 10/06/2021

Efst á síðu