Matarveislan Goût de France/Good France 2017 [fr]

JPEG
Goût de France/Good France matarhátíðin verður haldin um allan heim 21. mars, þar á meðal í Reykjavík.

Fyrst var efnt til þessarar hátíðar fyrir þremur árum. Um er að ræða kvöldverð með frönsku lagi, þar sem dregnir eru fram kostir franskrar matgerðarlistar, sköpunarkraftur hennar og gildin sem hún hvílir á: Samvera, matarnautn, virðing fyrir góðmeti, fyrir náunganum og fyrir jörðinni. Á matseðli veitingahúsanna, sem taka þátt í hátíðinni, eru fordrykkir, snittur, forréttur, aðalréttur og síðan ostar og eftirréttir ásamt frönskum létt- og kampavínum. 1.715 matreiðslumenn í 150 löndum í fimm heimsálfum tóku þátt í hátíðinni í fyrra.

Á þessu ári er lögð áhersla á menntun í veitingahúsa- og hótelfræðum. Þannig verður það Hótel- og matvælaskóli Menntaskólans í Kópavogi sem sér um að matbúa og framreiða kvöldverð í embættisbústað franska sendiherrans þetta hátíðarkvöld.

Við þökkum hjartanlega íslensku matreiðslumönnunum sem sýndu okkur þann sóma að taka þátt í Goût de France/Good France síðasta ár, þeim Sveini Kjartanssyni í Aalto Bistro, Friðgeiri Inga Eiríkssyni í Gallery Restaurant á Hótel Holti, Hákoni Má Örvarssyni á Kitchen & Wine, Stefáni Elí Stefánssyni á Perlunni, Stefáni Melsteð á Snaps og Arnari Inga Magnússyni á Vín & Skel og að lokum Jónasi Oddi Björnssyni sem annaðist hátíðarkvöldverð í embættisbústað sendiherrans.

Þetta ár fögnum við þátttöku sex íslenskra matreiðslumanna í Reykjavík en það eru þeir Sveinn Kjartansson á Aalto Bistro, Friðgeir Ingi Eiríksson á Gallery Restaurant á Hótel Holti, Hákon Már Örvarsson á Kitchen & Wine, Rémi Orange á Le Bistro, Númi Tómasson á Snaps og Ívar Þórðarson á Torfunni-Humarhúsinu.

Sjáumst 21. mars yfir sælkeramáltíð með frönskum blæ í Reykjavík!

Nánari upplýsingar er að fá á vefsetri hátíðarinnar.

Síðasta uppfærsla þann 01/03/2017

Efst á síðu