Loftslagsráðstefnan í París: Mikilvægasti fundur í sögu mannkyns [fr]

Þegar ég var í framhaldsnámi í Bandaríkjunum var ég aðstoðarkennari í námskeiði prófessors Robert Garrels við Northwestern University í Evanston, rétt fyrir utan Chicago í Illinois í Bandaríkjunum.

Hann kenndi námskeið um hringrás efna í heimsumhverfinu og studdist við bók sína Chemical Cycles and the Global Environment. Assessing Human Influence sem gefin var út 1981. Ég man eftir umræðum á námskeiðinu um aukningu CO2 í andrúmsloftinu, en mælingar á því höfðu farið fram reglulega á jarðfræðistofnuninni sem tengist Mona Loa eldfjallinu á Hawaii (Mynd 1). Í bókinni var þessi mynd, en náði einungis til 1980.

PNG - 107.5 ko
Mynd 1. Koltvísýringur í andrúmsloftinu sem fall af tíma frá 1958-2010.

Mynd 1 sýnir að koltvísýringur hefur aukist árlega síðan 1958. Þegar málin eru grannt skoðuð kemur í ljós að CO2 í andrúmsloftinu var 280 ppm (per volume - ppmv) fyrir iðnbyltinguna á 18. öld og er núna 400 ppmv og eykst með ári hverju - nú um 3 ppmv á ári. Garrels talaði um líkleg áhrif aukningarinnar vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti. Hann byggði þessar niðurstöður sínar ekki einungis á mælingum á CO2 í andrúmslofti á Hawaii, heldur var hann einnig mjög upptekinn við að reikna út hringrás efna á jörðinni, hve stórir hinir ýmsu efnageymar væru í jarðskorpunni og hvaða lífjarðefnafræðilegir ferlar og mannlegir þættir yllu því að efnin færast á milli geyma (t.d. í bergi, í lífmassa, í lífverum, í jarðvegi, í vötnum, í höfum, í seti í höfum og í andrúmsloftinu). Garrels var frumkvöðull í þessum fræðum og mörgum þótti hann hafa farið út á ranga braut þegar hann hætti að vinna við að skýra með efnavarmafræði (thermodynamics) hvernig efnajafnvægi næst á milli bergs, steinda og vatns (sem hann var heimsþekktur fyrir) en sneri sér þess í stað að hringrás köfnunarefnis, brennisteins og fosfats – efnanna sem eru undirstaða lífs á jörðinni.

Ég man að mér fundust þau rök Garrels góð að líklega væri maðurinn að hafa áhrif á styrkleika CO2 en hvorki ég né aðrir nemendur höfðum verulegar áhyggjur af framvindu mála. Á þessum tíma skrifuðu vísindamenn um áhrif mannsins á loftslagið og töluðu um gróðurhúsáhrifin, en stjórnmálamenn voru ekki að hlusta.

Árið 1988 setti Umhverfisprógram Sameinuðu þjóðanna (UNEP) á stofn nefnd um loftslagsmál (IPCC). Þessi nefnd hefur unnið fimm skýrslur með aðkomu þúsunda vísindamanna og kom sú síðasta út árið 2014. Í raun breytist lítið frá skýrslu til skýrslu nema hvað loftslagslíkönin verða sífellt yfirgripsmeiri og geta tekið fleiri ferla inn í útreikningana. Þegar fyrsta skýrslan kom út voru vísindamenn um 90% vissir um að maðurinn hefði áhrif á loftslagið með brennslu jarðefnaeldsneytis. Síðan hefur þessi prósentutala hækkað í 98%. Samt eru enn til þeir sem efast um loftslagsvandann, þótt fáir séu, og þeir fá oft álíka mikinn tíma í umræðunni og þúsundir vísindamanna. Er nema von að almenningur sé ruglaður í ríminu?

Umræðan í Frakklandi um þessi mál var vissulega líka hávær og þekktur vísindamaður þarlendur taldi að loftslagsbreytingarnar stæðu í engu sambandi við athafnir manna. Hann lét þó í minni pokann og frönsk stjórnvöld standa mjög myndarlega að ráðstefnunni um loftslagsmál í desember næstkomandi.

Þrátt fyrir umræður um að minnka útblástur eftir að IPCC nefndin var stofnuð fyrir nær 30 árum eykst CO2 enn í andrúmsloftinu. Kyoto loftslagssáttmálinn frá 1997 hefur ekki dregið úr útblæstri í heiminum, þótt árangur hafi náðst hjá nokkrum þjóðum. Ég var nýlega í útvarpsviðtali þar sem ég talaði um að loftslagsráðstefnan í París 2015 (COP21) sé mikilvægasta ráðstefna mannkynssögunnar. Ég dreg þessa ályktun vegna þess að EF góð samstaða næst um að draga úr útblæstri á heimsvísu og okkur tekst að halda meðaltalsbreytingum loftslags innan 2° C (sem samsvarar 450 ppm CO2) frá iðnbyltingu - þá tekst okkur líklega að stöðva þá ógn sem steðjar að komandi kynslóðum - þ.e. ef ef útblástur heldur áfram að aukast stöðugt alla öldina og þá myndi meðalhitastig á jörðinni verða 5-6oC hærra en fyrir iðnbyltingu og þá myndum við búa á allt annarri jörð en við búum á nú - þar sem ólíft yrði á stórum svæðum vegna hita, þurrka, flóða, sjávarborðshækkana og óveðurs.

Ég gerði mér fyrst grein fyrir á hve ósjálfbæran máta við búum á jörðinni árið 2000 en þá vann ég við háskólann í Bristol í Bretlandi. Síðan hef ég unnið ötullega að því að víkka út sjóndeildarhring nemenda minna og annars fólks til að hugsa heildrænt um sjálfbæra þróun. Sjálfbær þróun felst ekki einungis í því að vernda náttúruna eða umhverfið, heldur einnig í því að nýta auðlindir á sjálfbæran hátt, byggja upp sanngjörn þjóðfélög þar sem jafnrétti og efnahagslegur jöfnuður ríkir og vinna að velferð almennings. Þess vegna má einnig segja að sú einróma ákvörðun Sameinuðu þjóðanna þann 25. september 2015 að ná nýjum markmiðum um sjálfbærniþróun (Sustainable Development Goals) 2030 sé kannski mikilvægara samkomulag en loftslagssáttmálinn - vegna þess að af 17 þróunarmarkmiðum er einungis eitt tengt loftslagsbreytingum. En ástæðan fyrir því að ég álít ráðstefnuna í París mikilvægari í sögulegu samhengi, er að loftslagsbreytingar eru einkenni á heimskerfi sem er í kreppu. Ef okkur tekst ekki að hafa hemil á loftslagsbreytingum nást engin af hinum 16 þróunarmarkmiðunum. Ef okkur tekst hins vegar að hemja hlýnun jarðar erum við að hafa áhrif á öll hin 16 þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Með minnkuðum útblæstri og aðferðum við að binda CO2 í lífríkinu og jarðvegi kemur ný tækni, endurnýjanleg orka, minni skaðleg neysla, lífsstílsbreytingar, endurheimt skóga og rofinna landsvæða, og meiri samvinna á milli landa. Því biðla ég til almennings út um allan heim að hvetja ráðamenn sína til dáða næstu vikur svo að loftslagsráðstefnan í París í desember nái mikilvægum samþykktum um minnkun útblásturs.

Kollegar mínir í Bandaríkjunum hafa þróað loftslagslíkanið C-Roads (https://www.climateinteractive.org/tools/c-roads/) og með því að fylgjast með því hvað hver þjóð lofar mikilli minnkun á útblæstri fyrir COP21 er unnt að sjá hvaða hiti verði á jörðinni árið 2100. Unnt er að fylgjast með á Climate Scoreboard (https://www.climateinteractive.org/tools/scoreboard/). Alþjóðasamfélagið hefur samþykkt að halda hitahækkun undir 2°C, en að óbreyttu verður hitastigið að minnsta kosti 5° C hærra en fyrir iðnbyltingu. Þær aðgerðir, sem ríki heims hafa lofað til dagsins í dag, benda til 4° C hækkunar. Við þurfum að gera betur svo að komandi kynslóðum auðnist að lifa á jörðinni fram yfir næstu aldamót!


PNG - 645.6 ko
Kristín Vala Ragnarsdóttir

Prófessor Kristín Vala Ragnarsdóttir kennir sjálfbærni, auðlindanýtingu og áhrif mannsins á umhverfi sitt við Jarðvísindadeild í Háskóla Íslands. Hún var forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands frá 2008 til 2012. Þar áður var hún prófessor í umhverfissjálfbærni við Bristolháskóla í Bretlandi.

Hún lauk doktorsprófi í jarðefnafræði frá Northwestern University í Bandaríkjunum en hefur í meira en áratug sinnt þverfræðilegum rannsóknum í sjálfbærnivísindum.

Kristín Vala á sæti í norsku og evrópsku vísindaakedemíunum. Hún er heiðursfélagi Schumacherstofnunarinnar í Bristol og árið 2011 hlotnuðust henni heiðursverðlaun Balaton-hópsins, sem er hópur sérfræðinga um sjálfbærni.

Síðasta uppfærsla þann 11/11/2015

Efst á síðu