Le Goût – Keimur [fr]

JPEG
Annað árið í röð standa franska sendiráðið og Alliance Française í Reykjavík fyrir viðburðum undir heitinu Le Goût – Keimur.

Þátttakendur í viðburðunum með okkur eru Hagkaup, tímaritið Gestgjafinn, Hótel- og matvælaskólinn í Kópavogi, og auk þess matreiðslumennirnir Friðgeir Ingi Eiríksson, Hákon Örvarsson (Essensia), Stefán Elí Stefánsson og Sveinn Kjartansson (Aalto Bistro), Landakotsskóli og Fransk-íslenska viðskiptaráðið.

Þetta árið kemur til landsins frægur kökugerðarmeistari, Jacquy Pfeiffer, með atbeina Icelandair. Meðan hann staldrar hér við hittir hann að máli matreiðslu- og veitingamennina sem starfa með sendiráðinu, sýnir í Hagkaupum hvernig á að baka kryddbrauð og verður heilan dag í Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi.

Sendiráðið og Alliance Française taka aftur upp þráðinn frá í fyrra í samstarfinu við Hagkaup og Gestgjafann og á frönskum dögum í Hagkaupum verða kynntar fjórar uppskriftir sem matreiðslumennirnir Friðgeir Ingi Eiríksson, Hákon Örvarsson, Stefán Elí Stefánsson og Sveinn Kjartansson setja saman.

Starfsmenn í menningardeild sendiráðsins og Alliance Française fara í nokkra skóla í Reykjavík og efna til leikja með börnunum sem tengjast bragði, á frönsku. Keimi lýkur svo með frönsku pikknikki í Alliance Française, þar sem við bjóðum, og sumir geta uppgötvað, sígilda rétti úr franskri matseld, sem sjálfboðaliðar hafa útbúið.

Síðasta uppfærsla þann 07/11/2018

Efst á síðu