Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri sæmd riddarakrossi frönsku heiðursorðunnar [fr]

Þann 17. nóvember 2018 sæmdi sendiherrann Kristínu Jóhannesdóttur, kvikmyndahöfund og leikstjóra, riddarakrossi frönsku heiðursorðunnar.

Athöfnin fór fram í bústað sendiherrans. Fjölskylda og vinir Kristínar voru viðstödd orðuveitinguna og þar sem athöfnina bar upp á sjötugsafmæli hinnar íslensku „grande dame“ eða eðalkonu í íslenskri kvikmyndagerð, var afmælinu fagnað um leið.

Sendiherrann rifjaði upp að Kristín hefði lagt stund á nám í kvikmyndafræðum í Frakklandi, þar sem hún hreifst af «nýbylgjunni» og síðan fór hann nokkrum orðum um afrek hennar í kvikmyndagerð og uppsetningar í leikhúsum þar sem hún hefur unnið til margra verðlauna. Ennfremur rakti hann störf hennar til að breiða út íslenska kvikmyndalist á alþjóðavettvangi, einkum í Frakklandi.

Ásamt eiginmanni sínum og sálufélaga, Sigurði Pálssyni heitnum, hefur Kristín í öllum störfum sínum lagt ríkulega af mörkum til að efla menningarleg tengsl og samskipti Íslendinga og Frakka, þjóða sem eru ólíkar um margt en eru forvitnar og hrifnar hvor af annarri. Eins og Kristín hefur orðað það þá fann hún í Frakklandi sylluna sína, kvikmyndirnar, og jafnframt rödd hins íslenska leikstjóra sem sækir innblástur í franska menningu.

Með því að sæma Kristínu Jóhannesdóttur riddara af frönsku heiðursorðunni, sem er einhver mesta sæmd í Frakklandi, vildi Emmanuel Macron, forseti Frakklands, heiðra merkt framlag hinnar íslensku menningarkonu, sem bæði talar frönsku og hefur mætur á Frakklandi, til að auðga og efla gagnkvæma vináttu og virðingu þjóða Frakklands og Íslands.

Síðasta uppfærsla þann 08/04/2021

Efst á síðu