Jóhanna Björk Guðjónsdóttir hlýtur frönsku menntaorðuna [fr]

JPEG
6. mars síðastliðinn sæmdi franski sendiherrann Jóhönnu Björk Guðjónsdóttur, frönskukennara og þýðanda, menntaorðunni „Chevalier de l’Ordre des Palmes Académiques“.

Jóhanna hlaut orðuna fyrir alhug sinn í þágu franskrar tungu og menningar. Hún tók við orðunni við athöfn í bústað sendiherrans, að viðstöddum vinum sínum og vandamönnum.

Það var Napóleon Bonaparte sem efndi til menntaorðunnar árið 1808 til að heiðra þá sem sinna kennslustörfum og viðgangi menntunar.

Jóhanna lauk frönskunámi við Háskóla Íslands, fór í framhaldsnám í Paul Valéry háskólanum í Montpellier og tók svo til við frönskukennslu við ýmsar íslenskar menntastofnanir. Auk þess sinnti hún um nokkurra ára hríð störfum upplýsingafulltrúa við franska sendiráðið í Reykjavík.

Henni er fleira til lista lagt en kennslufærni því hún er sérfræðingur í menningarheimi Québecbúa og hefur þýtt bækur eftir kanadíska höfunda frá þeim slóðum. Þá hefur hún ennfremur látið að sér kveða í félagsstörfum, verið formaður Félags frönskukennara og setið í stjórn Alliance Française í Reykjavík.

Síðasta uppfærsla þann 16/04/2019

Efst á síðu