Ísland og COP21 ráðstefnan í París [fr]

Koma forseta Frakklands til Íslands 16. október síðastliðinn varð til að vekja athygli íslensks almennings á loftslagsbreytingum.

Ríkisstjórn Íslands hafði tilkynnt að hún ætlaði að fylgja sameiginlegri ákvörðun Evrópuríkja um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% til ársins 2030 en kvað nánar á um fyrirætlanir sínar í sóknaráætlun um loftslagsbreytingar sem kynnt var 25. nóvember.

Reykjavík er fyrirmyndarborg því hún reiðir sig einvörðungu á endurnýjanlega orku til húshitunar og rafmagnsframleiðslu og borgarstjórinn stóð fyrir miklu átaki í loftslagsmálum. Ásamt Festu, sem er félagsskapur um samfélagsábyrgð fyrirtækja, og Sendiráði Frakklands hvatti hann fyrirtæki til að leggja sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. 103 íslensk fyrirtæki, mörg þeirra í hópi stærstu fyrirtækja landsins skuldbundu sig til að draga mælanlega úr útblæstri og sorplosun í yfirlýsingu sem undirrituð var 16. nóvember og naut stuðnings Sameinuðu þjóðanna. Þátttaka fyrirtækjanna fór fram úr björtustu vonum.

Borgarstjórinn í Reykjavík undirritaði líka 6. nóvember „yfirlýsingu norrænna höfuðborga um loftslagsbreytingar, sem birt var fyrir COP21 ráðstefnuna í París 2015“, ásamt borgarstjórum Óslóar, Stokkhólms, Kaupmannahafnar, Helsinki, Maríuhafnar á Álandseyjum og Þórshafnar í Færeyjum. Borgirnar skuldbinda sig, samkvæmt þessari yfirlýsingu, til að draga meira úr losun gróðurhúsalofttegunda en sem nemur skuldbindingu viðkomandi ríkisstjórna. Reykjavík tekur raunar líka þátt í NAZCA átakinu, sem er á vegum Sameinuðu þjóðanna, og á bak við það standa ýmsir aðilar, aðrir en ríkisstjórnir.

Náttúruverndarsamtök hafa líka fylkt sér um aðgerðir í tengslum við Parísarfundinn. Loftslagsganga var farin í Reykjavík 29. nóvember með aðkomu ýmissa aðila, þar á meðal Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem hafa staðið að ýmsum viðburðum ásamt sendiráðinu, til þess að vekja athygli á loftslagsmálum.
JPEG

Og áhugi Íslendinga á Parísarfundinum lýsir sér best í þátttökunni. Forsetinn, forsætisráðherrann tveir ráðherrar aðrir, sex þingmenn, borgarstjóri Reykjavíkur... taka þátt í störfunum á COP21. Einir tuttugu stúdentar í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands, sem sendiherrann hefur tvívegis hitt að máli, fara líka á ráðstefnuna í París.

Og loks má geta þess að 30. nóvember birti sendiherrann grein um málið í Fréttablaðinu og í Morgunblaðinu var viðtal við hann.

Síðasta uppfærsla þann 08/12/2015

Efst á síðu