Í skólanum, í skólanum...

PNG
Í tilefni af degi frönskukennara 28. nóvember 2019 báðum við nokkur þau sem lærðu frönsku á Íslandi að rifja upp skóladagana og kennarana.


Gerður Kristný hefur gefið út fjölda verka, meðal annars ljóð, skáldsögur og smásögur og hlotið margvísleg verðlaun, þar á meðal Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness, Íslensku bókmenntaverðlaunin og Vestnorrænu barnabókaverðlaunin. Nýverið gaf hún út ljóðabókina Heimskaut sem hefur fengið afbragðsdóma.
JPEG - 79.9 ko
Gerður Kristný

Ég man alveg hvar ég var og hver ég var þegar ég heillaðist af franskri menningu. Ég var unglingsstúlka og hafði farið í Nýja bíó við Lækjargötu að sjá kvikmyndina Betty Blue. Þar ólmaðist fólk berrassað um þegar vel lá á því en um leið og innri djöflar tóku að ásækja það rak það hníf ofan í handarbakið hvert á öðru. Þetta var land að mínu skapi og ég ákvað að leggja stund á frönsku. Um svipað leyti sló tónlist Les Négresses Vertes í gegn og litlu síðar sáu allir sem vettlingi gátu valdið Tous les matins du monde eða lásu bókina. Frönsk menning var út um allt og hún kallaði á mig. Ég var lánsöm að njóta þekkingar nokkurra frönskukennara sem mig langar að minnast í þessu erindi.
Ég innritaðist í Menntaskólann við Hamrahlíð, 15 ára gömul, þar sem hópur metnaðarfullra frönskukennara var að störfum. Þar lærði fámennur stelpnahópur frönsku - að minnsta kosti þegar líða tók á námið og okkur hafði tekist að hrista af okkur strákana. Fyrsta kennslubókin sem við lásum var sænsk og þar birtust teikningar af hippalegum Svíum sem fóru inn í Bureau du tabac og báðu um Gauloises-sígarettur. Fyrstu vikurnar fóru sem sagt í að kenna okkur unglingunum að biðja um sígarettur. Sigurlaug Bjarnadóttir fór einörð yfir námsefnið með okkur og þar var ekkert gefið eftir. Landið fór aðeins að rísa þegar Senegalmaðurinn Moussa snaraðist fram á sjónarsviðið og vatt sér á flóamarkað að kaupa stól og borð til að möblera hjá sér íbúðina.
Síðar tóku þær Geirlaug Þorvaldsdóttir við, brosmild og ljúf, og Catherine Eyjólfsson sem lét okkur stúlkurnar syngja: „Marie c‘est bien Charlemagne qui t‘a fait lever si tôt.“ Mér fannst oft undarlegt til þess að hugsa að Catherine hefði flutt úr sínu fagra landi til að kenna frönsku í gráustu byggingu allra grárra bygginga en ég bar virðingu fyrir því.

Það skiptust á skin og skúrir á menntaskólaárunum en í frönskutímunum ríkti ró og friður sem mér var nauðsynlegur. Þar fékk ég líka staðfestingu á því sem mig hafði grunað, ég gat lært málfræði. Jafnvel þótt framburðurinn vefðist fyrir mér náði málfræðin alltaf að heilla mig. Eins og við vitum er heldur ekkert eins fallegt og franskur viðtengingarháttur. Það besta var þó að með því að læra frönsku öðlaðist ég lykil að heilu samfélagi. Í fjarska beið Frakkland og þar yrði ég ekki eins og álfur út úr hól – að minnsta kosti ekki þegar ég þyrfti að biðja um Gauloise-sígarettur.

Sumarlangt vann ég sem au-pair-stúlka á gistiheimili sem nunnur ráku í Suður-Frakklandi og um þriggja mánaða skeið dvaldi ég í Caen í norðurhluta landsins. Síðan tók lífið aðra stefnu og ég lauk BA-prófinu hér heima. Enn og aftur stundaði ég nám í hópi gáfaðra og blíðra bekkjarsystra. Ragna Sigrún Sveinsdóttir stýrði okkur mjúkri hendi, bauð okkur heim og hellti upp á kakó svo málfræðin festist betur í minni.

Tíminn leið og að BA-prófi loknu gekkst ég blaðamennsku og skáldskap á hönd. Frakkland var ekki lengur hluti af lífi mínu. Ég varð ekki vör við áhrif franskrar menningar lengur hér á landi og ég átti ekkert þangað að sækja.
Og þó, líklega þurfti ég bara að gera mér ferð þangað og árið 2003 var komið að kaflaskilum í lífi mínu. Ég leigði mér íbúð í gamla hverfinu í Nice. Þar dvaldi ég ein í þrjá mánuði og rifjaði upp frönskuna í taltímum í Alliance Francaise þar sem Jean-Philippe kenndi, ungur maður sem kvaðst vera einn fjölmargra af sinni kynslóð sem fengið hefði sama nafn og Johnny Hallyday. Þetta var dýrðartími. Ég skrifaði, las bækur og sólaði mig. Íbúar Nice eru gott fólk. Vanti konu orð þegar hún kaupir í matinn eða velur sér kjól eru þeir fljótir að koma til bjargar. Öll borgin aðstoðaði mig í raun við að ná aftur tökum á tungumálinu og ég hyllti hana með því að spreða viðtengingarhætti þegar ég gat komið því við.

Einu komst ég að þarna á grýttri ströndinni, mér fannst franskar nútímabókmenntir leiðinlegar. Þar var alltaf einhver í ástarsorg. Alltaf einhver að tala um tilfinningar sínar. Liðin var sú tíð þegar fólk þagði þunnu hljóði þar til það tók fram gaffalinn og lét hann vaða í næsta mann. Ég gerði mitt besta til að finna eitthvað bitastætt í bókabúðunum og einn daginn komst ég að því að Frakkar voru alveg jafnhrifnir og ég af finnska höfundinum Arto Passilinna. Allt höfundarverk hans beið mín á frönsku. Nú var gaman og ég las hverja bókina á fætur annarri um innri átök einmana Finna sem vetrarstríðið hafði svipt allri lífsgleði.

Auðvitað lærði ég frönsku af þessum hryssingslegu Finnum og einn daginn þótti Jean-Philippe nóg um. Fyrst hætti ég að nota orðið „enfant“ um börn sem urðu á vegi mínum. Þess í stað sagðist ég hafa hitt „morveux“. „Það var bara fullt af horgemlingum á ströndinni í gær!“ sagði ég. Þegar talið barst að félagslegum vandamálum í Nice og heimilislausir bárust í tal mundi ég ekki þá góðu skammstöfun „les s.d.f“ sem notuð er fyrir „les sans domicile fixe“ – heldur talaði á minn finnska máta um „les bons à rien“. Ónytjunga. Þá fékk Jean-Philippe nóg og spurði mig hvar ég lærði þennan talsmáta eiginlega. Ég útskýrði að ég væri á valdi finnskra skáldsagna. Hann ráðlagði mér að velja mér eitthvað betra að lesa. Svona talaði enginn nema rakinn dóni.

Þetta er ekki aðeins saga af áhyggjufullum kennara, heldur líka saga af því hvernig góðar bókmenntir geta gert fólk að enn verri manneskjum en það var fyrir.


Sigurjón Ágústsson er ungur stúdent í licencenámi í stærðfræði við einn fremsta háskóla Frakklands, École polytechnique. Hér fara á eftir minningar um frönskukennarann í Kvennó.
JPEG - 82.7 ko
Sigurjón Ágústsson

Það eru fáir kennarar sem hafa haft jafn mikil áhrif á mig og Jóhanna Guðjónsdóttir. Tímarnir hjá henni eru jafn fjölbreyttir eins og þeir eru margir og þar er lögð mikil áhersla á Frakkland og franska menningu til viðbótar við franska tungu. Alltaf mætir hún yfirveguð og er þolinmóð við nemendurna sem er kostur sem ekki allir kennarar búa yfir. Hún kveikti áhuga minn og annarra á Frakklandi og til marks um hversu vel hún náði til okkar þá vorum við þrjú úr bekknum sem fluttum til Frakklands í lengri eða skemmri tíma eftir útskrift. Það eitt og sér segir allt sem segja þarf. Það leikur enginn vafi á því í mínum huga að aðrir mættu taka sér hana til fyrirmyndar og að betri kennara og boðbera franskrar menningar er vart hægt að fá.

Sigurður Árni Sigurðsson er listamaður sem stundaði nám við École Nationale d’Art í Cergy Pontoise. Verk hans eru reglulega á sýningum í Frakklandi. Síðasta sýning hans í Hverfisgalleríi í Reykjavík, „Leiðréttingar“, var einnig sett upp í París nýlega. Gefin hefur verið út bók um verkið, bæði á íslensku og frönsku.
JPEG - 48.4 ko
Sigurður Árni Sigurðsson

„Í Menntaskólanum á Akureyri lærði ég þýsku en ég var á náttúrufræðibraut og ætlaði að verða jarðfræðingur. Á þessum árum sinnti ég félagsmálum betur en námi og var formaður kvikmyndaklúbbs skólans um tíma og kynntist þá Tómasi Inga Olrich sem var frönskukennari skólans, síðar menntamálaráðherra og sendiherra Íslands í París. Tómas Ingi kenndi mér ekki en aðstoðaði kvikmyndaklúbbinn við að fá myndir til sýnis á kvikmyndakvöldum sem við héldum reglulega.

Þetta voru 16mm kvikmyndir sem komu innpakkaðar í álboxum frá franska sendiráðinu og Alliance Francaise í Reykjavík. Filmurnar þræddum við upp á vél og sýndum í sal Möðruvalla. Við þurftum iðulega að stoppa og kveikja ljós þegar ný spóla var þrædd í vélina. Þetta voru mest allt klassískar Film-noir myndir; t.d. Le Samourai og Le Clan des Siciliens með leikurunum Jean Gabin, Lino Ventura og löggumyndir eins og “Un Flic” með Alain Delon, kvikmyndir sem engin leið var að sjá á Akureyri á þessum árum.

Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en löngu seinna að þarna var fyrsta frönsku-fræinu sáð og get því sagt að Tómas hafi verið minn fyrsti frönskukennari og sennilega haft áhrif á þá ákvörðun mína að fara í nám til Parísar eftir að ég lauk Myndlista- og handíðaskólanum, löngu búinn að gleyma jarðfræðinni.

Ég hóf nám í École Nationale Supérieure d‘Arts de Paris Cergy árið 1987 hjá prófessor Jean-Claude Silbermann. Hann sagði mér strax að ég hefði fengið inngöngu í skólann vegna minna myndlistarverka en ekki málakunnáttu og benti mér á að fara í frönskunám. Það gerði ég og tók tveggja mánaða Cours-intensif hjá Alliance Francaise í Paris. Ég finn enn til með kennurunum sem kendu mér þessa tvo mánuði en er óendanlega þakklátur þeim og Alliance Francaise fyrir þolinmæðina í minn garð. Ég man að mér fannst þetta mjög erfitt og í raun óskiljanlegt tungumál.

Eftir einn mánuð skildi ég ekkert og var jafn mállaus og þegar ég byrjaði en svo gerðist eitthvað á seinni mánuðinum og mér fannst ég skilja einhvern strúktúr, jafnvel pínulítið í málfræðinni. Það tók mig samt langan tíma að þora að tala tungumálið og ég er ennþá að reyna að tala eins og Jean Gabin.“


Ragnar Helgi Ólafsson er myndlistarmaður, útgefandi og rithöfundur, meðal annars höfundur bókarinnar „Bókasafn föður míns“. Jean-Christophe Salaün hefur þýtt verk hans á frönsku fyrir Passage útgáfuna. Hér segir Ragnar okkur frá minningum sínum úr Menntaskólanum við Sund.
JPEG - 67.8 ko
Ragnar Helgi Ólafsson

Fanný Ingvarsdóttir gegndi því óþakkláta starfi að kenna mér frönsku í menntaskóla. Henni á ég margt að þakka. Ekki síst það að spyrja mig ekki of margra spurninga.

Fanný vissi vel að við sem sátum hjá henni tíma í MS vorum ekki endilega þar af skýrri hvöt og enn síður drifin áfram af takmarkalausum metnaði fyrir því að ná fullkomnum tökum á franskri tungu. Það var miklu frekar eitthvað miklu óljósara, einhver óformuð hugmynd sem varð til þess að við völdum að synda á móti straumnum sem í þá daga flóði afdráttarlaust í þá átt að velja praktískt mál, þýsku, sem þriðja mál.

Eftir á að hyggja þá get ég ekki annað en dáðst að því hvernig Fanný spilaði úr þessari stöðu. Í stað þess að reyna hið ómögulega og einbeita sér að því að berja inn í höfuð okkar beygingarmyndir óreglulegra franskra sagna og þess háttar vonleysisverkefni þá lagði hún einmitt frekar áherslu á hitt: Franska menningu. Það var í tíma hjá Fannýju sem ég heyrði fyrst minnst á Serge Gainsbourg, heyrði einhvern vísa til „la nouvelle vague“ eins og það væri hversdagslegt hugtak sem nota mætti í spjalli. Gott ef hún spilaði ekki líka „Les Négresses vertes“ fyrir okkur. Það var einhverskonar opinberun fyrir strák sem hafði einungis verið alinn upp á hljómsveitum sem skrifað var um í ensku og amerísku popp-pressunni að heyra slíkt stöff.

Óreglulegu sagnirnar voru samt þarna líka. Námsskráin frá ráðuneytinu var skýr; engar undantekningar varðandi það; þær áttu nemendur að kunna til stúdentsprófs. Þegar nær dró lokaprófinu á fjórða ári byrjaði ég að hafa nokkrar áhyggjur af þessum sögnum. Þær áhyggjur voru þó ekki nógu djúpar til þess að ég færi að læra þær skipulega. En samt, þetta voru áhyggjur. Þegar lesbók lokaársins var kynnt féll mér þó allur ketill í eld. Þar var kynnt til sögunnar „Huis clos“ eftir Jean-Paul Sartre. Það verk bar nafn með rentu, „Luktar dyr“. Inn um þær komst ég ekki.

Munnlega prófið í frönsku var hið síðasta á prófaskránni. Það vofði yfir mér meðan ég las upp sögu, eðlisfræði og allt hitt til stúdentsprófsins á fjórða ári. Mig grunaði að þetta munnlega próf yrði mitt Waterloo: Árans óreglulegu sagnirnar, allt kæmist þá upp, þar kæmi Fanný sannarlega að luktum dyrum hjá mér.

Daginn fyrir prófið greip ég til minna ráða. Ég las þriðja kaflann úr bókinni "Ça va?" sem kennd var á fyrsta ári. Ég gerði strik á upphafssíðunni í hvert skipti sem ég hóf lesturinn. Ég las hann aftur og aftur, alls 20 sinnum. Að því loknu lagði ég árar í bát. Það myndi skeika að sköpuðu úr því sem komið væri.

Það hefur eflaust sprottið fram svitaperla á enninu þegar ég gekk inn í stofuna og settist við grændúkað borðið gegnt Fannýju og prófdómaranum. „Bonjour“, jú það gat ég græjað en þegar þau myndu fara að spyrja þá myndi leikurinn vera úti. Ég gaf þeim því ekkert andrými til að spyrja heldur lýsti ég eftirfarandi yfir, stundarhátt: „Hier je suis allé à la campagne“ (ég hafði lært setninguna utan að). Þegar þau gerðu sig líkleg til að byrja að spyrja mig frekar út í sveitaferðina þá hóf ég að telja upp það sem í sveitinni hafði fyrir augu borið. Ég hóf hverja setningu á „J’ai vu“, það var orðaleppur sem ég hafði lært utanað. Á eftir „J’ai vu“ fylgdi síðan nafnorð: „les cochons“. Í framhaldi af þessari yfirlýsingu, þegar Fanný og prófdómarinn gerðu sig líkleg til að bera upp spurningu spilaði ég aftur út „J’ai vu“-leppnum og bætti svo við öðru nafnorði í fleirtölu: geiturnar, lömbin, hestana, hænurnar ... það er slatti af nafnorðum í fleirtölu í sveitinni. Það er ótrúlegt hve lengi maður getur haldið þessu áfram. Eftir svolitla stund voru bæði Fanný og prófdómarinn hætt að gera sig líkleg til spyrja, heldur gáfu þau mér góðam tíma til að smjatta á „J’ai vu“ og nafnorðunum góðu.

Ég held að okkur hafi öllum þremur verið jafnlétt þegar litla bökunarklukkan gall við á grændúkuðu skólaborðinu. Ég hafði talað frönsku í fjórar mínútur sléttar. Vissulega takmarkaða frönsku en frönsku þó og ég náði prófinu – ekki með stíl en ég náði.

Fannýju tókst að vekja áhuga – jafnvel leggja grunninn að ást – á þessum furðulega hlut sem þá var Íslendingi svo framandi: Franskri menningu. Hvað sem öllum óreglulegum sögnum líður er það í raun stórmerkilegur árangur þegar í hlut á hrokafullur unglingur á níunda áratugnum.

Fanný vissi vel hvað hún var að gera einmitt þegar hún kaus að krefja mig ekki um óreglulegu sagnirnar. Síðan ég tók þetta munnlega próf hef ég nefnilega heimsótt Frakkland ótal sinnum, haft þar búfestu um árabil, lesið „Ógleði“ Sartres í háskóla, horft á „Nuit Américaine“ eftir Truffaut tíu sinnum, hlustað á Gainsbourg complet þúsund sinnum og meira að segja lært slatta af óreglulegum sögnum. Fyrir það ætti ég auðvitað að vera Fannýju þakklátur, en þó er það frekar fyrir hitt að ég syng henni lof í þessum pistli: Að brosa bara og spyrja engra spurninga þennan dag þegar ég sagði henni frá því að daginn áður „hefði ég farið upp í sveit...”


Oddný Eir Ævarsdóttir er heimspekingur, menntuð í París. Hún hefur sent frá sér margs konar ritverk, bæði ljóð og skáldsögur og hlaut Fjöruverðlaunin árið 2012 og Evrópsku bókmenntaverðlaunin árið 2014.
JPEG - 91.9 ko
Oddný Eir Ævarsdóttir

„Ég minnist helst Catherine Eyjólfsson. Hún var góður frönskukennari. Kom manni ekki einungis í tengsl við kjarna málfræðinnar og lauk upp annars lokuðu kerfi málsins, heldur tengdi hún mann beint við franska menningararfleifð, með orðum sínum og fasi. Hún kenndi með blöndu af ákveðni og mildi. Og húmorinn var hennar leynivopn. Ég minnist þess ekki að hafa verið góður nemandi, því miður uppteknari af ástinni og ástarsorginni en tungumálunum á þeim tíma. Einu sinni þegar hugurinn fór á flug við það eitt að sjá orðið Amour á töflunni ritað fallegum stöfum, þá henti kennarinn í mig karmellu og bað mig vinsamlegast um að vera á staðnum. Mér brá, ég hló og fylgdi henni svo eftir og komst í skilning um muninn á d’amour og l’amour. Lemúrar hlupu um bekkinn og söfnuðu saman karmellunum, því það þurfti að opna augun á öðrum líka fyrir ástinni á frönskunni.

Síðasta uppfærsla þann 10/06/2021

Efst á síðu