Í minningu Régis Boyers, 1932-2017 [fr]

JPEG
Régis Boyer, prófessor við Sorbonne 1970-2001, lést í júní síðastliðnum. Boyer skrifaði margt um íslenskar bókmenntir og menningu og þýðingar hans úr íslensku á frönsku eru miklar að vöxtum, sérstaklega þýðingar á fornritum. Torfi Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands, skrifaði minningargrein um Boyer og gaf sendiráðinu góðfúslega heimild til að birta greinina hér.

Þegar Régis Boyer var tæplega þrítugur sendu frönsk stjórnvöld hann með ungri eiginkonu sinni, Marie-Rose, til Íslands þar sem hann starfaði um tveggja ára skeið sem sendikennari. Hann kenndi frönsku við Háskólann og á vegum Alliance Française en hélt líka fræðslukvöld um það sem efst var á baugi hverju sinni í frönsku menningarlífi. Samhliða þessu mikla starfi var hann óþreytandi að kynna sér íslenskar miðaldabókmenntir enda hafði hann einsett sér að skrifa um þær doktorsritgerð, nánar tiltekið um það sem lesa mátti úr þeim um trúarlíf á Íslandi á 12. og 13. öld. Hann sökkti sér af þvílíkum krafti ofan í fornbókmenntir okkar að þær gagntóku hann. Á efri árum höfðu þau hjónin gaman af því að rifja upp þegar hann stökk fram úr rúminu eina nóttina í miðjum draumi og sagðist þurfa að finna Þórð kakala.

Brennandi áhugi Boyers á íslenskum bókmenntum entist honum ævina á enda og standa Íslendingar í mikilli þakkarskuld við hann. Eftir að hann fluttist aftur heim og fékk prófessorsstöðu við Sorbonne þýddi hann flestar fornsögurnar á frönsku og gaf þær út hjá virtum forlögum, auk þess eddukvæði og Snorra Eddu. Samtímis ritaði hann merk fræðirit um efnið og var óþreytandi að kynna menningararfleifð okkar og annarra norrænna þjóða í ræðu og riti í heimalandi sínu. Mitt í öllu þessu fann hann líka tíma til að sinna samtímahöfundum og þýddi verk eftir Halldór Laxness, Thor Vilhjálmsson, Jón Óskar, Svövu Jakobsdóttur, Álfrúnu Gunnlaugsdóttur, Gunnar Gunnarsson, Sigurð Pálsson, Pétur Gunnarsson og Steinunni Sigurðardóttur. Afrakstur ævistarfs hans er ótrúlegur að vöxtum og þá er ekki minnst á allar þýðingar hans úr dönsku, norsku og sænsku.

Boyer var eftirminnilegur maður, kraftalegur með djúpa rödd og eilítið hrjúfa framkomu. Sem ungur maður gegndi hann herþjónustu í Alsírstríðinu. Honum bauðst liðsforingjatign vegna háskólaprófa sem hann hafði aflað sér. Líf hans hefði verið þægilegra og lífshættan minni en hann afþakkaði slíka sérmeðferð og var refsað með því að vera settur sem óbreyttur hermaður í liði með hálfgerðum ribböldum og sendur þar sem harðast var barist.

Boyer var gæfumaður í einkalífi. Elsta barn þeirra Marie-Rose fæddist hér á landi en alls eignuðust þau sjö börn sem öllum hefur vegnað vel í lífinu og eru barnabörn og barnabarnabörn langt komin með að fylla þriðja tuginn.

Ég skrifaði doktorsritgerð mína um fornaldarsögur Norðurlanda í Sorbonne undir handleiðslu Boyers. Ég hefði ekki getað verið heppnari með leiðbeinanda. Hann gaf mér fullt frelsi til að móta viðfangsefnið og rannsóknaraðferðina, hlustaði vel þegar ég var að útlista fyrir honum hvernig ég nálgaðist efnið, var bæði gagnrýninn og hvetjandi og umfram allt ráðagóður. Ég er honum ævinlega þakklátur fyrir það og minnist hans á kveðjustundinni sem góðs læriföður og vinar.

Síðasta uppfærsla þann 10/06/2021

Efst á síðu