Heimsókn „Pourquoi pas?“ til Reykjavíkur [fr]

Starfslið sendiráðs Frakklands á Íslandi skoðaði franska hafrannsóknaskipið „Pourquoi pas?“ 31. maí 2018 en skipið lá í höfn í Reykjavík 29. maí til 1. júní. Það er franska hafrannsóknastofnunin IFREMER og sjómælinga- og haffræðideild flotans (SHOM) sem gera skipið út.

„Pourquoi pas?“ er um hundrað metrar á lengd, 6.600 tonn og eru skipverjar allt að 70 manns, bæði áhöfn og vísindamenn. Skipið er óvenjulegt um margt. Það er með krana og vindur, háþróaða nema og getur gengið fyrir rafmagni. Það er í raun fljótandi rannsóknastöð og búið fullkomnustu nútímatækni til að kortleggja hafsbotninn og vinna úr gögnum sem aflað er með rannsóknabúnaðinum. Með leiðöngrunum stuðlar „Pourquoi pas?“ þannig að betri þekkingu á höfunum og umhverfi þeirra og leggur sitt af mörkum til alþjóðasamfélagsins.

Skipinu var gefið heitið „Pourquoi pas?“ (Hvers vegna ekki?) í virðingarskyni við landkönnuðinn mikla og vísindamanninn Jean-Baptiste Charcot og vísar nafnið til skips Charcots, „Pourquoi pas?“ sem fórst í miklu ofviðri í Straumfirði á Mýrum 15. september 1936. Aðeins einn maður úr áhöfn komst af.

Síðasta uppfærsla þann 01/06/2018

Efst á síðu