Fundir með Olivier Cadic, öldungadeildarþingmanni fyrir Frakka búsetta erlendis 13. - 15. júní [fr]

Olivier Cadic, öldungadeildarmaður fyrir Frakka búsetta erlendis, kom í fyrstu heimsókn sína hingað til lands 13. - 15. júní 2019, ásamt Gérard Pignatel, kjörnum konsúlsfulltrúa.

Cadic átti hér viðræður við forseta Alþingis og forseta og varaforseta utanríkismálanefndar Alþingis og ennfremur við utanríkisráðherra. Á þessum fundum kom skýrt fram samhljómur í afstöðu Frakka og Íslendinga til alþjóðamála og vilji til að efla tvíhliða viðræður um utanríkismál.

Viðskiptaráð Íslands bauð öldungadeildarmanninum til fundar um útgöngu Breta úr ESB. Cadic hefur búið í Bretlandi í 22 ár og fjallaði um hvernig Brexit horfði við honum. Hann lagði áherslu á hve margir óvissuþættir tengdust útgönguferlinu.

Sjálfur er Cadic atvinnurekandi og heimsótti Sjávarklasann og komst þar að raun um hve mikill þróttur og hugkvæmni einkenna fiskveiðar og fiskvinnslu á Íslandi. Hann fundaði einnig með frammámönnum í íslensku viðskiptalífi áður en hann hélt í heimsókn í jarðgufuvirkjunina á Hellisheiði þar sem unnið er að verkefni í kolefnisbindingu með stuðningi stofnana víða um heim, þar á meðal franska rannsóknaráðsins.

Í húsakynnum Alliance Française í Reykjavík var efnt til samkomu franska samfélagsins á Íslandi og Cadic. Þar var meðal annars rætt um frönskukennslu á Íslandi, bæði fyrir Íslendinga sem vilja læra málið og einnig fyrir frönsk ungmenni sem ganga í íslenska skóla. Í heimsókn í rannsókna- og þróunardeild Matís hitti Cadic síðan unga franska vísindamenn sem ræddu við hann um samkeppnishæfni og verðleika vísinda á Íslandi.

Síðasta uppfærsla þann 26/09/2019

Efst á síðu