Fullkomið tækifæri til að komast í nýtt og spennandi umhverfi

JPEG

Í ár var efnt í fyrsta sinn til listamannaskipta fyrir tónlistarfólk á milli Mengis í Reykjavík og Trempo í Nantes, Frakklandi. Tilgangur verkefnisins er að reisa brýr milli borganna tveggja og tónlistarheima þeirra og byggja upp samstarf í gegnum tónlist og sköpun. Að verkefninu stóðu L’Institut français, Reykjavík Music City, borgin Nantes, Iceland Music, Mengi og Trempo í Nantes. Verkefnið er stutt af Franska sendiráðinu á Íslandi, Alliance Française í Reykjavik og STEF.

JPEG

Snorri dvaldi í stúdio 4.2 í Trempo í Nantes frá 30.maí til 17.júní í þessum fyrstu tónlistarmannaskiptum.
"Draumalíf mitt sem tónlistarmaður er að geta skipt tíma mínum á milli þess að skrifa kvikmyndatónlist og vinna í minni eigin tónlist. Síðustu tvö ár var ég svo heppinn að fá tækifæri til að skrifa tónlist við nokkrar kvikmyndir, en það þýddi að ég hafði engan tíma fyrir mína eigin tónlist. Residensían í Nantes hljómaði eins og fullkomið tækifæri til að komast í nýtt og spennandi umhverfi þar sem ég gat einbeitt mér að fullu að eigin sköpun, kynnst nýju fólki, og fá ferskan innblástur," segir Snorri og útskýrir hvers vegna hann sótti um dvölina.

JPEG

"Þá heillaði auðvitað mikið hversu góður fjárhagslegur stuðningur við verkefnið var. Fyrir sjálfstætt starfandi tónlistarfólk, þar sem allt frí er ólaunað, skiptir það sköpum og algjört lykilatriði fyrir sköpunargáfuna að þurfa ekki að hafa áhyggjur af næstu mánaðarmótum."

JPEG

Snorri lýsir verunni í Nantes sem algerlega stórkostlegri að öllu leyti.

"Allt utanumhald af hálfu starfsfólks Trempo var til fyrirmyndar, og það var hugsað vel um mig frá fyrstu mínútu. Ég hafði fullkomið rými til að vinna í minni tónlist, og að auki eignaðist ég marga yndislega vini sem sáu til þess að það var aldrei dauð stund. Það voru skipulögð ferðalög, tónleikar, og alls konar viðburðir svo það var frábært jafnvægi milli vinnu og gamans. Þá er Nantes mjög skemmtileg borg."

JPEG

Snorri segir það hafa skipt sköpum fyrir hann sem tónlistarmann að skipta um umhverfi.

"Það var svo gefandi að komast í nýtt umhverfi og hafa algjört frelsi til að vinna að því sem mig langaði til að vinna að. Það loðir oft við svona verkefni að maður þurfi að skila einhverju sérstöku af sér, sem getur þá búið til óþægilega pressu. En þessi dvöl var óskrifað blað — ég fór út með þá hugmynd að byrja hugmyndavinnu fyrir nýrri plötu, og kom heim með fullan poka af hugmyndum.

Svo var ég svo heppinn að hin manneskjan í þessari skiptidvöl er hinn ótrúlegi sellóleikari Cécile Lacharme. Fyrir utan það að skipuleggja félagslíf mitt frá A-Ö, þá lék hún með mér á tvennum tónleikum og ég er fullviss að við munum spila oft saman í framtíðinni. Það gaf mér frábært tækifæri til að vinna í útsetningum á eigin tónlist fyrir lifandi flutning.

JPEG

Þá er einfaldlega bara svo hollt að skipta um umhverfi og þessi dvöl var eins og ákveðinn “reset” takki fyrir mig. Ég kom heim endurnærður og með miklu skýrari sýn fyrir mín framtíðarmarkmið en ég hafði áður."

Spurður um hvaða verkefni séu næst á döfinni svarar hann að hann ætli að nota sér meðbyrinn frá Nantes dvölinni til þess að einbeita sér að næstu sóló plötu.
"Þá mun ég spila nokkra tónleika bæði erlendis og hér heima í haust.
Á næstu mánuðum koma einnig út tvær kvikmyndir sem ég samdi tónlist fyrir: spænska hryllingsmyndin Jaula núna í september og ísraelska heimildamyndin Innocence síðar í vetur, og verður tónlistin úr þeim myndum gefin út samhliða myndunum. Þau tónspor eru eins ólík og hægt verður, svo ég er mjög spenntur fyrir að geta loksins sýnt afrakstur þeirrar vinnu."

Við báðum Snorra um nokkur meðmæli að uppáhaldsstöðum í Nantes:

"Það er svo margt sem kemur til greina hér! Svæðið í kringum Trempo er mjög skemmtilegt, gamalt skipasmíðahverfi á eyju í ánni Loire sem nú hýsir list af öllum toga. Það er nauðsynlegt að taka stutta ferju til Trentemoult og skoða gömlu litríku sjóarahúsin þar og fá sér kaffi í leiðinni. Þá mæli ég með dagsferð til Noirmoutier, fallegrar eyju á Atlantshafsströndinni sem tekur u.þ.b. klukkustund að keyra til frá Nantes. Svo er miðbær Nantes auðvitað mjög skemmtilegur, hægt að rölta um endalaust þar og um að gera að setjast niður og fá sér bretanskt crêpe."

Myndir úr einkasafni fyrir utan efstu myndina sem er tekin af Chama Chereau.
Með Snorra á myndunum eru Cécile Lacharme sem er hin manneskjan í skiptidvölinni, Caroline Baudry sem sá um að skipuleggja dvölina fyrir hönd Trempo, Héloïse Bonnard sem vinnur líka hjá Trempo, og Geoffrey Le Goaziou sem er tónlistarmaður og vinur Cécile Snorri kynntist í Nantes.

Síðasta uppfærsla þann 12/07/2022

Efst á síðu