Franskar sendinefndir um hitaveitumál sækja Reykjavík heim [fr]

PNG
Þann 25. og 26. apríl síðastliðinn komu nokkrar sendinefndir á sviði jarðhitamála til Íslands: Forseti Strassborgarsvæðisins, rektor verkfræðiháskólans í Strassborg og forystufólk franska jarðhitaklasans.

Sendinefndirnar voru önnum kafnar meðan á dvölinni hér stóð. Franska sendiráðið tók þátt í að skipuleggja dagskrána og tengslin milli aðila í báðum löndum voru víkkuð og dýpkuð.

Herrmann, forseti Strassborgarsvæðisins, og Renner, rektor verkfræðiháskólans í Strassborg, komu með fleiri fulltrúum til að kynna sér betur sérþekkingu Íslendinga í jarðhitamálum. Ferð sendinefndanna var árangursrík, samskiptin snerust einkum um reynslu Íslendinga sem gagnast gæti í Elsass-héraði, en þar eru fyrirhugaðar miklar jarðhitaboranir.

Sendinefndirnar áttu í mestum samskiptum við Orkustofnun, Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands og ýmis orkuvinnslu- og verkfræðifyrirtæki. Sendinefndirnar heimsóttu jarðhitasvæði og gátu þannig betur áttað sig á aðstæðum, virkni, framleiðsluferlum og sérkennum í vinnslu jarðhita á Íslandi.

Nú er liðið ár frá því að undirritað var samkomulag um samstarf milli verkfræðiskólans í Strassborg og Háskólans í Reykjavík. Var af því tilefni rætt um að hrinda því í framkvæmd með stúdentaskiptum í byrjun næsta skólaárs.

Og þessu til viðbótar þá komu forystumenn í franska jarðhitaklasanum til Íslands í tengslum við ICG ráðstefnuna, sem er alþjóðaráðstefna um jarðhitamál. Ségolène Royal, umhverfis- og orkumálaráðherra Frakklands, kom til landsins í júlí í fyrra og var við það tilefni undirritað samkomulag frönsku og íslensku jarðhitaklasanna. Nú var tækifærið notað til að treysta tengslin milli forsvarsmanna á þessu sviði í báðum löndum.

Jarðhitasamstarf Frakka og Íslendinga, hvort sem er á pólitískum, viðskiptalegum eða vísindalegum vettvangi, stendur sem sé með blóma!

Síðasta uppfærsla þann 23/05/2016

Efst á síðu