Fréttir af íslensk-franskri veforðabók [fr]

JPEG - 137.9 ko
Ritstjórn orðabókarinnar haustið 2016. Talið frá vinstri: Karl Gadelii (fulltrúi Sorbonne), François Heenen, Anna Hannesdóttir (fulltrúi Gautaborgarháskóla), Jean-Christophe Salaün, Þórdís Úlfarsdóttir, Rósa Elín Davíðsdóttir, Áslaug J. Marinósdóttir og Hallfríður Helgadóttir. Á myndina vantar Ólöfu Pétursdóttur og Sigurbjörgu Eðvarðsdóttir sem komu síðar til sögunnar.

Haustið 2015 hófst vinna við íslensk-franska orðabók. Við báðum ritstjóra verksins, Rósu Elínu Davíðsdóttur, að segja okkur hvernig miðaði, og hér er það sem hún hefur að segja.

Einhver ykkar hafa eflaust notað fransk-íslenska orðabók sem kom út árið 1995 (og er aðgengileg á www.snara.is), eða litlu gulu vasaorðabókina. Kannski hafið þið jafnvel notað íslensk-frönsku orðabókina sem kom út árið 1950, eftir Gerard Boots, flæmskan prest í Landakotskirkju. Framúrskarandi verk en svolítið úrelt.

Því má segja að löngu sé kominn tími á nýja orðabók sem uppfyllir þarfir notenda á 21. öld og getur nýst okkur í samskiptum milli Íslands og Frakklands, hvort sem það er á sviði menningarmála eða efnahagsmála. Gerð slíkrar bókar, íslensk-franskrar veforðabókar, hófst haustið 2015. Orðabókin inniheldur um fimmtíu þúsund uppflettiorð ásamt fjölda notkunardæma og um tíu þúsund orðasambönd.

Orðabókarteymið samanstendur af þýðendum og kennurum. Sumir hafa frönsku að móðurmáli, aðrir íslensku. Við höfum notið liðsinnis sendiráðs Frakklands á Íslandi, franska ríkisins, íslenska ríkisins og einnig er verkefnið styrkt af Erasmus+ áætluninni.

Stefnt er að því að vinnu við orðabókina ljúki í lok árs 2019 og þá verður hún öllum opin og aðgengileg á vefnum. Við hlökkum til að deila afrakstrinum með ykkur og munum leyfa ykkur að fylgjast með á lokametrunum.

Síðasta uppfærsla þann 07/10/2019

Efst á síðu